Fjölmiðlafyrirtækið 365 hefur náð samningum við ensku úrvaldsdeildina um að sýna áfram frá enska boltanum á sportrásum sínum. Nýi samningurinn tekur gildi næsta sumar og gildir í þrjú ár. Frá þessu er greint á Vísi.is. Síminn bauð einnig í enska boltann, samkvæmt heimildum Kjarnans.
365 hefur sýnt frá enska boltanum síðastliðinn níu tímabil og mun nú gera það að minnsta kosti til ársins 2019.
Útboð vegna enska boltans fór fram í nóvember og var ljóst að hörð samkeppni yrði um sýningarréttinn milli 365 og Símans, sem er orðinn virkur þátttakandi á fjölmiðlamarkaði eftir sameiningu sína við SkjáEinn fyrr á þessu ári. Síminn hefur þegar tryggt sér sýningarréttinn af Evrópukeppninni í knattspyrnu, sem fram fer í Frakklandi næsta sumar, og var búist við að fyrirtækið myndi gera harða atlögu að því að tryggja sér enska boltann líka.
Ekki er tilgreint hver verðmiðinn á enska boltanum var í frétt Vísis.is. Á Norðurlöndunum hefur verið hart barist um réttinn og búist var við því að metupphæðir yrðu greiddar fyrir rétt til útsendinga til þriggja ára frá hausti 2016. Samkvæmt skrifum VG í Noregi, var reiknað með því að greiða þyrfti yfir milljarð norskra króna, eða um fimmtán milljarða króna á núverandi gengi, fyrir rétt til útsendingar þar í landi en mikill áhugi er á enska boltanum í Noregi, eins og hér á landi. Sé mið tekið af þeirri upphæð sem nefnd er í umfjöllun VG, og hún sett hlutfallslega niður á íslenskan markað miðað við mun á íbúafjölda, þá gæti rétturinn á útsendingum enska boltans hér á landi til þriggja ára hafa farið á tæpan milljarð króna.
Enskir fjölmiðlar telja að salan á alþjóðlegum sýningarrétti á enska boltanum muni skila ensku úrvalsdeildinni þremur milljörðum punda á samningstímanum, eða um 580 milljörðum íslenskra króna. Það kemur til viðbótar við þá fjárhæð sem greidd var fyrir innlenda réttinn á honum í byrjun árs. Þá var rétturinn fyrir árin 2016-2019 seldur fyrir 5,2 milljarða punda. Það gera rúmlega eitt þúsund milljarðar íslenskra króna. Eina íþróttadeildin í heiminum sem þénar meira vegna seldra sjónvarpsrétta er bandaríska NFL-deildin.
Því fá liðin 20 sem spila í deildinni rúmlega tvo milljarða punda til skiptanna á hverju ári sem samningurinn gildir. Það gerir um 100 milljónir punda á hvert lið að meðaltali.