Gunnar Smári Egilsson, sem nýverið leiddi hóp sem keypti Fréttatímann, er gagnrýndur í nafnlausa pistlinum „Stjórnarmaðurinn“ í Markaðnum, fylgiblaði Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál, í dag. Sá sem skrifar pistilinn segir það vonandi fyrir Gunnar Smára og aðra hluthafa að betur verði farið með fé nú en í tíð hans á forstjórastóli í því félagi sem nú heitir 365 miðlar.
Gunnar Smári var lykilmaður í stofnun Fréttablaðsins, fríblaðsins sem hefur verið mest lesna dagblað landsins undanfarin rúman áratug. Hann var ritstjóri blaðsins um tíma og síðar forstjóri fjölmiðlafyrirtækisins 365 miðla, sem á og rekur Fréttablaðið og fleiri fjölmiðla á nýrri kennitölu í dag. Stærsti eigandi 365 miðla í gegnum tíðina hefur verið Jón Ásgeir Jóhannesson. Fyrirtækið er að mestu í eigu eiginkonu hans, Ingibjargar Pálmadóttur í dag. Gunnar Smári hætti sem forstjóri árið 2006.
Tilkynnt var á fimmtudag að Gunnar Smári leiði hóp sem hefur keypt allt hlutafé í Miðopnu, eiganda Fréttatímans. Gunnar Smári verður útgefandi blaðsins fram að áramótum en tekur þá við sem ritstjóri þess ásamt Þóru Tómasdóttur. Á meðal annarra eigenda eftir kaupin eru fjárfestarnir Árni Hauksson, Hallbjörn Karlsson og Sigurður Gísli Pálmason. Valdimar Birgisson verður áfram í eigendahópnum og mun hver eigandi eiga viðlíka stóran hlut.
Í nafnlausa pistlinum „Stjórnarmanninum“, sem birtist í Markaðnum í dag, segir að Gunnar Smári sé vissulega frumkvöðull á sviði íslenskrar fjölmiðlunar og sá sem hvað stærstan hlut átti í að gera Fréttablaðið að útbreiddasta og mest lesna dagblaði landsins. Höfundur pistilsins segir þó að vonandi sé fyrir Gunnar Smára og aðra hluthafa að betur verði farið með fé en í tíð hans á forstjórastóli í því félagi sem nú heitir 365 miðlar. „Meðal gæluverkefna Gunnars Smára á þeim tíma var hin íslenska CNN stöð, NFS, sem flutti fréttir af engu allan sólarhringinn, Talstöðin, útvarpsstöðin sem aldrei spilaði tónlist með tilheyrandi dagskrárkostnaði, og síðast en ekki síst dönsk útgáfa Fréttablaðsins – Nyhedsavisen. Öll fara þessi verkefni á spjöld sögunnar í íslenskri fjölmiðlun, og þá frekar fyrir fádæma metnað á litlum markaði en arðsemi.“