Líf Magneudóttir, sem sett var af sem formaður mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar í gær, segir að það sem gert er gert. Sóley Tómasdóttir, oddviti Vinstri grænna í Reykjavík og forseti borgarstjórnar, tók ákvörðunina um að setja Líf, sem er flokkssystir hennar, af. Sóley settist sjálf í formannsstólinn í staðinn.
Í stöðuuppfærslu sem birtist á Facebook fyrir skemmstu segir Líf að það hljóti að vera Sóleyjar að útskýra ákvörðunina. „Fyrir mér horfir málið svona við: Það sem er gert er gert. Núna skiptir mestu að við horfum fram á veginn og stöndum saman um að vinna að málum Vinstri-grænna í borginni og höfum áhrif til góðs fyrir íbúa og umhverfi. Innanflokksátök um persónur hjálpa okkur ekki við það.
Ef það má draga lærdóm af þessu þá er hann sá að það þurfi að bæta ákvarðanatökuferlið í borgarstjórnarhópnum og efla tengsl hópsins og grasrótarinnar í flokknum. Það er verkefni okkar allra og ég mun leggja mitt af mörkum í þeirri vinnu og treysti því að aðrir í borgarstjórnarhópnum geri slíkt hið sama."
Líf var skipuð formaður ráðsins þegar meirihluti var myndaður í borginni í júní 2014 en á sama tíma tók Sóley við hlutverki forseta borgarstjórnar.Fjölmiðlar hafa greint frá því að samstarfserfiðleikar hafi verið á milli Lífar og Sóleyjar um langa hríð.