Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2016 er tilbúið til annarrar umræðu með breytingartillögum og nefndaráliti. Frumvarpið var tekið úr fjárlaganefnd eftir fund hennar fyrir hádegi í dag. Frá þessu greinir Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, í stöðuuppfærslu á Facebook.
Kjarninn greindi frá því í gær að umræðum um fjárlagafrumvarpið verður haldið áfram eftir helgi, vonandi á mánudag, samkvæmt Einari K. Guðfinnssyni, forseta Alþingis. Þá mun hefjast önnur umræða um frumvarpið, en hún átti samkvæmt starfsáætlun þingsins að fara fram þann 26. nóvember síðastliðinn. Á mánudag verður því komin 12 daga seinkun á starfsáætluninni.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, vakti athygli á því á Alþingi í gær að meirihluti fjárlaganefndar Alþingis væri ekki búin að skila af sér breytingartillögum sínum fyrir aðra umræðu fjárlaganna. „Þriðja umræða fjárlaga átti að fara fram í gær og maður spyr sig: Hvað veldur?“ Árni Páll sagði ótrúlegan skort á verkstjórn af hálfu forystu fjárlaganefndar og ríkisstjórnarinnar. „Ég verð því að spyrja virðulegan forseta: Hvenær getur þá önnur umræða fjárlaga farið fram og mun forseti ekki fara að tryggja það að forusta fjárlaganefndar hætti að móðga fólk úti í bæ og fari að vinna vinnuna sína?“
Vigdís sagði í samtali við Kjarnann í gær þegar þetta var orðið ljóst að hún væri „algjörlega óstressuð yfir því“ að seinkun væri komin á afgreiðslu fjárlaga. Hún sagði það vera til þess fallið að skapa úlfúð þegar rætt væri um að umræður muni ekki standast starfsáætlun þingsins og stjórnarandstaðan hugsi ekki um dagskrá þingsins þegar hún stundaði málþóf.
Fjárlaganefnd hefur nú afgreitt breytingatillögur og nefndarálit, samkvæmt því sem formaður hennar segir á Facebook.