Samtals fá 17 eftirlitsstofnanir ríkisins um 13.134
milljónir króna á næsta ári úr ríkissjóði. Það er 5,8 prósent meira en þær
fengu á þessu ári, þegar 12.409 milljónir króna runnu til þeirra. Alls aukast
útgjöld til eftirlitsstofnana því um 725 milljónir króna á næsta ári. Mesta aukningin er til Samgöngustofu (144 milljónir króna) og Matvælastofnunar (136 milljónir
króna). Frá þessu er greint í Morgunblaðinu.
Þar er rætt við Guðlaug Þór Þórðarson, þingmann Sjálfstæðisflokksins og varaformann fjárlaganefndar. Hann segir ríkisstofnanir sporna við sparnaði með öllum tiltækum ráðum. „Það gengur erfiðlega að spara hjá stofnunum. Kerfið ver sig með öllum ráðum. Það skortir skilning á mikilvægi þess að gæta aðhalds í ríkisfjármálum og hafa í þessu tilfelli einfalt og skilvirkt eftirlitskerfi. Þetta er útlagður kostnaður skattgreiðenda og það er líka í þessu fólginn mikill óbeinn kostnaður fyrir atvinnulífið og fólkið í landinu, eins og allir vita... Fjárlögin eru illskiljanleg og það er iðulega verið að ræða smærri mál í stað þess að ræða stóru málin.“
Guðlaugur Þór segir að tregðulögmálið sé hrikalega sterkt. Til að taka á þessum hlutum þurfi að vera samspil framkvæmdavalds og þingmeirihluta. „Það virðist vera svo að þótt menn séu í orði kveðnu tilbúnir í breytingar þá vantar upp á að þeim sé hrint í framkvæmd.“