Það er siðferðislegt hneyksli og þjóðarskömm að Bandaríkjamenn geti með löglegum hætti keypt vopn sem eru hönnuð til þess að drepa fólk með miklum hraða og skilvirkni. Þessi vopn eru stríðsvopn.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í leiðara New York Times í dag, en leiðarinn, sem heitir The Gun Epidemic, eða Byssufaraldurinn, birtist á forsíðu blaðsins. Þar er kallað eftir hertari reglum um byssueign eftir fjöldaskotárásir undanfarið.
„Athygli og reiði Bandaríkjamanna ætti einnig að beinast að kjörnum leiðtogum sem hafa það verkefni að tryggja öryggi okkar en þykir meira verðmæti í peningum og pólitískum völdum iðnaðar sem er helgaður því að hagnast á óhindraðri útbreiðslu enn öflugri skotvopna,“ segir meðal annars í leiðaranum. „Kjörnir leiðtogar Bandaríkjanna bjóða fram bænir fyrir fórnarlömb skotvopna, og svo, tilfinningalausir og án hræðslu við afleiðingarnar, hafna þeir grundvallartakmörkunum á vopn sem eru notuð í fjöldamorðum, eins og þeir gerðu á fimmtudaginn. Þeir afvegaleiða okkur með rökum sem innihalda orðið hryðjuverk. Verum alveg skýr: Þessi fjöldamorð eru öll, á sinn hátt, hryðjuverk.“
Í leiðaranum er komið inn á það að andstæðingar þess að byssulöggjöfin verði hert noti sem rök að þeir sem ætli sér að drepa verði sér úti um vopn. Það hafi gerst í Frakklandi, Englandi og Noregi, þar sem byssulöggjöfin er ströng. Leiðarahöfundur segir að það sé vissulega rétt, „en þessi lönd eru að minnsta kosti að reyna. Bandaríkin eru það ekki.“
Það verði að fækka skotvopnum verulega og útrýma mörgum tegundum. „Hvaða tími er betri en á meðan á forsetakosningum stendur til að sýna loksins að þjóðin hefur ennþá sómakennd sína?“ er spurt að lokum í leiðaranum.
Þetta er í fyrsta sinn frá árinu 1920 sem leiðari er birtur á forsíðu blaðsins. Arthur Sulzberger Jr., útgefandi blaðsins, segir að blaðið hafi ákveðið að setja leiðara á forsíðuna til að senda sterka og sýnilega yfirlýsingu um gremju og þjáningu yfir plágunni sem byssur séu. Forsíður blaða séu ennþá mjög sterkar og öflugar og góð leið til að koma málefnum sem þarfnist athygli á framfæri. „Og hvaða málefni er mikilvægara en það að þjóðinni mistekst að vernda borgaranna?“