Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hyggst endurskoða löggjöf um fóstureyðingar, en löggjöfin sem nú er í gildi er frá árinu 1975. Kjarninn greindi í síðustu viku frá grein eftir fjóra reynda heilbrigðisstarfsmenn sem birtist í nýjasta tölublaði Læknablaðsins þar sem sagt var að tími væri kominn til að huga að endurmati á fóstureyðingarlögunum á Íslandi og láta þau sjónarmið ráða för sem styðja nútímalegt sjálfræði kvenna.
Kristján Þór segir við Fréttablaðið í dag að hann hafi falið starfsmönnum sem vinna á þessu sviði í upphafi árs að fara að undirbúa endurskoðun á þessum lögum. Þau séu barn síns tíma og full þörf sé á því að endurskoða löggjöfina í heild sinni. „Megináhersla mín í þessum efnum er að konur hafi ákvörðunarvald yfir eigin málum. Í mínum huga er þetta ákvörðun sem konan sjálf er best búin og fær um að taka og hún á að hafa ákvörðunarvaldið í þessu efni.“
Sjálfsákvörðunarréttur endurspeglar viðhorf samtímans
Konur eru enn í þeirri aðstöðu formlega að ef þær vilja binda endi á meðgöngu þurfa tveir óskyldir aðilar, tveir læknar eða læknir og félagsráðgjafi, að samþykkja beiðni þeirra.
Þetta varð niðurstaðan í lögum um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir, sem voru sett árið 1975 á Alþingi og voru um margt framsýn lög. Lögin byggðu hins vegar á grunni laga um fóstureyðingar frá 1935, þar sem var ákvæði um að tveir læknar þyrftu að undirrita greinargerð áður en fóstureyðing mætti fara fram. Í lögunum árið 1975 var þessu breytt þannig að annar þessara tveggja óskyldu aðila mátti vera félagsráðgjafi þegar félagslegar ástæður væru að baki.
Þau Jens A. Guðmundsson dósent og læknir á kvenna- og barnasviði Landspítalans, Ósk Ingvarsdóttir læknir á þróunarsviði heilsugæslunnar, Reynir Tómas Geirsson, prófessor og læknir á kvenna- og barnasviði og Sóley S. Bender prófessor við hjúkrunarfræðideild HÍ sem skrifuðu greinina í nýjasta tölublað Læknablaðsins og vöktu athygli á þessu.
„„Fóstureyðing“ er því miður mjög gildishlaðið orð. „Þungunarrof“ lýsir betur því sem hér er af nauðsyn gert,“ segja þau meðal annars í greininni. Flestir séu sammála um að löggjöfin verndar heilsu og jafnvel líf kvenna og þungunarrofi fylgi lítil vandkvæði eða áhættur ef rétt sé staðið að.
„Sjálfsákvörðunarréttur fólks í sínum einkamálum endurspeglar viðhorf samtímans, og þar með til barneigna, fjölskyldumyndunar, kynhegðunar, hvers kyns læknismeðferðar, – jafnvel til lífsloka,“ skrifuðu þau jafnframt.
Fóstureyðingalögin og túlkun þeirra hafi á síðustu áratugum mátt fella að almennum viðhorfum um rétt konu til að ákveða hvenær barneign er tímabær og hægt hafi verið að finna nýjum aðferðum við þungunarrof með lyfjameðferð rými innan laganna. Framkvæmdin sé þannig í dag að mat konu á eigin aðstæðum og vilji hennar er virtur þegar óskað er eftir þungunarrofi. Formlega þarf samt ennþá samþykki annarra. Nú eru 40 ár liðin frá setningu laganna og Jens, Ósk, Reynir og Sóley segja að nú megi huga að endurmati.