Angela Merkel Þýskalandskanslari er manneskja ársins að mati tímaritsins TIME.
„Þú getur verið sammála henni eða ekki, en hún er ekki að velja auðveldu leiðina. Á leiðtoga reynir aðeins þegar fólk vill ekki fylgja þeim. Fyrir að krefjast meira af þjóð sinni en flestir stjórnmálamenn myndu gera, fyrir að standa sterk gegn harðstjórn og hentugleika, og fyrir að sýna staðfasta siðferðislega leiðtogahæfni í heimi þar sem skortur er á slíku, er Angela Merkel manneskja ársins hjá TIME.“
Hún er kölluð kanslari hins frjálsa heims í blaðinu, sem fer yfir líf Merkel frá því að hún var barn að alast upp í Austur-Þýskalandi. Tímaritið segir að á árinu sem er að líða hafi Merkel ekki einu sinni, ekki tvisvar heldur þrisvar sinnum stigið upp þegar spurningar hafi vaknað um það hvort Evrópa og Evrópusambandið myndu lifa af.
Merkel hafi þá þegar verið komin í ómissandi hlutverk í því að stjórna skuldakrísunum í Evrópu, segir tímaritið. Hún hafi líka leitt Vesturlönd í viðbrögðum við Úkraínu.
En árið 2015 hafi mögulegt gjaldþrot Grikklands ógnað tilveru evrusvæðisins, innflytjenda- og flóttamannakrísa hafi storkað hugmyndum um opin landamæri, og að lokum hafi hryðjuverkin í París endurvakið þau viðbrögð að vilja skella í lás, byggja landamæraveggi og treysta engum.
„Í hvert skipti steig Merkel upp,“ segir tímaritið í umfjöllun sinni. Þýskaland myndi hjálpa Grikklandi, með hennar ströngu skilyrðum. Þýskaland myndi bjóða flóttamenn velkomna sem fórnarlömb grimmdarverka róttæks íslams, en ekki hluta af því. Og Þýskaland myndi senda hermenn til að berjast gegn Íslamska ríkinu.
Tímaritið segir að Merkel hafi sett í brennidepil öðruvísi gildi. Manngæsku, örlæti og umburðarlyndi - til að sýna að styrk Þýskalands væri hægt að nota til þess að hjálpa, frekar en að skemma. Hún hafi verið gagnrýnd mikið fyrir afstöðu sína og stuðningur við hana hefur minnkað um 20%.
Lesendur völdu Bernie Sanders
Bernie Sanders, sem vill verða forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins í Bandaríkjunum, var hins vegar í fyrsta sæti hjá lesendum TIME þegar kom að valinu á manneskju ársins. Sanders hlaut yfir 10% atkvæða í kosningu á netinu. Næst á eftir honum var baráttukonan Malala Yousafzai, sem hlaut 5,2% atkvæða, og Frans páfi var í þriðja sæti með 3,7%.