Guðmundur Gunnarsson, fyrrum formaður Rafiðnaðarsambandsins og faðir Bjarkar Guðmundsdóttur söngkonu, segir dóttur sína búa á Íslandi og greiða hér sína skatta.
Þetta kemur fram í Facebook stöðuuppfærslu hans sem birtist fyrr í dag vegna ummæla Jóns Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins og formanns atvinnuveganefndar, um Björk í gærkvöldi. Jón sagðist þar játa að hann skildi ekkert í Björk og velti því fyrir sér hvort hún borgaði skatta á Íslandi.
Guðmundur spyr á móti hvar skattar stóriðjunnar séu og „auðlindagjöld þeirra sem kostuðu Jón á þing?"
Gagnrýni Jóns á Björk kom í kjölfar þess að hún kallaði Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, sveitalubba í viðtali við Sky-sjónvarpsstöðina. Sagði Jón m.a. að Björk væri „frekar dauf til augnanna á bak við grímuna“.
Hann hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir þau ummæli á samfélagsmiðlum í dag. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík sagði m.a. að annað hvort myndi Jón biðjast afsökunar á „þessum fáránlegu ummælum“ um Björk og draga þau til baka eða hann sæti uppi með ævivarandi skömm.