Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, segir að annað hvort biðjist Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður atvinnuveganefndar, afsökunar á „þessum fáránlegu ummælum“ um Björk Guðmundsdóttur og dragi þau til baka eða hann situr uppi með ævivarandi skömm. Jón sagði í stöðuuppfærslu á Facebook í gær að Björk væri „frekar dauf til augnanna á bak við grímuna“ og gagnrýndi hana fyrir að hafa kallað Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, sveitalubba í viðtali við Sky-sjónvarpsstöðina.
Jón sagðist játa það fúslega að hann skilji ekkert í Björk og velti því fyrir sér hvort hún borgi skatta á Íslandi. „Þingið væri örugglega ekki verra ef þar væru fleiri með hugsunarhátt sveitamannsins. Niðurstaða loftlagsráðstefnunnar hvetur okkur til að nýta með skynsömum hætti endurnýjanlegar orkuauðlindir landsins til aukinnar verðmætasköpunar. Nýting þeirra mun skapa traustan grunn að íslensku samfélagi, tækifæri til að gera svo mikið betur á mörgum sviðum. Ég reikna ekki með að Björk leggi sín lóð á þær vogarskálar, eða borgar hún skatta og gjöld á Íslandi. Spyr sá sem ekki veit. Hún er frekar dauf til augnanna á bakvið grímuna,“ sagði Jón.
Dagur spyr í stöðuuppfærslu í morgun hvað sé hægt að segja við svona lágkúru. „Björk er ekki aðeins sá íslenski listamaður sem hefur náð lengst á alþjóðavettvangi og sá Íslendingur sem vakið hefur mesta og jákvæðasta athygli á land og þjóð. Hún er líka skýr og afdráttarlaus málsvari íslenskrar náttúru og umhverfismála. Að hún þurfi að fá yfir sig skít og skot vegna þessa - og það af hinu "háa Alþingi" segir mikið um hvernig fyrir löggjafasamkomu okkar er komið. Er tilgangurinn að reyna að hræða fólk frá því að taka málstað umhverfisins? Annað hvort biðst Jón Gunnarsson alþingismaður afsökunar á þessum fáránlegu ummælum og dregur þau til baka eða situr uppi með ævarandi skömm. Svona gerir maður ekki.“