Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, margreyndur fréttamaður sem hefur starfað hjá 365 undanfarin ár, hefur ráðið sig sem fréttastjóri Fréttatímans. Hún greindi samstarfsfólki sínu frá þessu í tölvupósti í dag. Í póstinum stóð: „Kæru félagar. Hef ráðið mig á Fréttatímann og er að hefja störf þar sem fréttastjóri. Það er með söknuði sem ég kveð ykkur eftir þennan stutta tíma en ný verkefni kalla. Þakka ykkur öllum kærlega fyrir samstarfið og gleðileg jól."
Þóra Kristín segir í samtali við Kjarnann að hún muni hefja störf á Fréttatímanum eftir áramót.
Miklar breytingar eru framundan hjá Fréttatímanum. Í lok nóvember var tilkynnt að Gunnar Smári Egilsson, fyrrum ritstjóri Fréttablaðsins, leiði hóp sem hefði keypt allt hlutafé í Miðopnu, eiganda Fréttatímans. Gunnar Smári verður útgefandi blaðsins fram að áramótum en tekur þá við sem ritstjóri þess ásamt Þóru Tómasdóttur. Á meðal annarra eigenda eftir kaupin eru fjárfestarnir Árni Hauksson, Hallbjörn Karlsson og Sigurður Gísli Pálmason. Valdimar Birgisson verður áfram í eigendahópnum og mun hver eigandi eiga viðlíka stóran hlut.
Fréttatíminn er fríblað sem er prentað í 82 þúsund eintökum einu sinni í viku og dreift í hús. Í síðustu prentmiðlakönnun Gallup kom fram að 36,4 prósent landsmanna á aldrinum 12-80 ára lesa Fréttatímann. Blaðið var fyrst með í mælingum Gallup í mars 2011 og mældist þá með tæplega 42 prósent lestur. Síðan þá hefur lesturinn rokkað töluvert en Fréttatíminn virtist á mikilli siglingu í upphafi árs, á sama tíma og aðrir miðlar með stórt upplag voru í frjálsu falli. Þegar leið á árið fór lesturinn hins vegar að dala og Fréttatíminn hefur aldrei mælst með jafn lítinn lestur og blaðið er að mælast með síðastliðna mánuði.
Árni Hauksson og Hallbjörn Karlsson hafa verið umsvifamiklir fjárfestar á Íslandi á undanförnum árum. Árni hefur nokkuð mikla reynslu af fjölmiðlarekstri. Hann var fjármálastjóri hjá Frjálsri fjölmiðlun, sem gaf meðal annars út DV, undir lok tíunda áratugarins. Árni átti auk þess hlut í fjölmiðlafyrirtækinu 365 um tíma og sat í stjórn þess þangað til snemma í nóvember 2008, þegar hann sagði sig úr stjórninni með látum.
Þeir Árni og Hallbjörn efnuðust á því að kaupa, og selja síðar, Húsasmiðjuna. Þeir keyptu síðan hlut í Högum fyrir skráningu félagsins á hlutabréfamarkað í lok árs 2011 og seldu síðar með miklum hagnaði. Árni og Hallbjörn voru einnig á meðal þeirra sem keyptu í Símanum ásamt stjórnendum þess fyrirtækis áður en það var skráð á markað.
Sigurður Gísli Pálmason er einnig umsvifamikill fjárfestir og á meðal annars Ikea á Íslandi ásamt bróður sínum. Sigurður Gísli er bróðir Ingibjargar Pálmadóttur, aðaleiganda 365 miðla.