Fréttablaðið fer í fyrsta sinn undir 50 prósent lestur síðan snemma árs 2002 en er áfram mest lesna dagblað landsins, líkt og það hefur verið frá því í febrúar 2003. Viðskiptablaðið mælist með mesta lestur sem blaðið hefur mælst með síðan að það kom aftur inn í mælingar á árinu 2011. Þetta kemur fram í nýrri prentmiðlakönnun Gallup.
DV tekur stökk upp á við í nýrri prentmiðlakönnun Gallup og mælist nú með mesta lestur sem blaðið hefur mælst með frá því að gengið var frá kaupum Björns Inga Hrafnssonar og meðfjárfesta hans á blaðinu í desember 2014. Lestur DV í nóvember mældist 9,5 prósent og jókst um 1,9 prósentustig á milli mánaða. Lestur blaðsins hefur einungis einu sinni áður farið yfir níu prósent frá því að nýir eigendur tóku formlega við DV eftir að eftirlitsaðilar höfðu samþykkt kaupin fyrir um ári síðan. Það var í júlí síðastliðnum.
Vert er að taka fram að lestur prentmiðla hækkar oft í nóvember og desember, sem eru stærstu mánuðir ársins í birtum auglýsingum. Þannig er einnig nú því að DV, Fréttatíminn og Viðskiptablaðið hækka öll marktækt í lestri á milli mánaða. Morgunblaðið og Fréttablaðið standa hins vegar nánast í stað.
DV spyrnir sér frá botninum
Athygli vekur að þeir tveir toppar sem lestur DV hefur náð á undanförnu ári koma um svipað leyti og blaðið hefur ráðist í frídreifingu í mun stærra upplagi en vanalega. Í lok júní var DV dreift frítt inn á tugþúsund heimili. Þá var forsíðuviðtal blaðsins við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. Í lok nóvember var síðan DV dreift frítt í stærsta upplagi í sögu DV. Þá var Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í forsíðuviðtali.
Ljóst er að DV höfðar frekar til eldri lesenda en þeirra yngri. Í aldurshópnum 18-49 ára lesa 7,7 prósent landsmanna blaðið.
DV hefur því náð viðspyrnu í lestri undanfarna mánuði, en blaðið náði sögulegum botni í lestri í ágúst síðastliðnum þegar 7,13 prósent þjóðarinnar lásu það. Lestur blaðsins hafði aldrei verið jafn lítill og þá í 40 ára sögu DV. Á meðan að hópur tengdur feðgunum Reyni Traustasyni og Jóni Trausta Reynissyni átti DV, en þeir misstu yfirráð yfir blaðinu í fyrrahaust, var lestur blaðsins vanalega á milli 11 og 12 prósent.
Fréttablaðið fer undir 50 prósent í fyrsta sinn frá 2002
Hin stóru tíðindin í nýrri prentmiðlakönnun Gallup eru þau að Fréttablaðið fer í fyrsta sinn undir 50 prósent lestur frá árinu 2002. Þá kom blaðið inn á 76 þúsund heimili í landinu. Síðan þá hefur dreifing Fréttablaðsins verið aukin og því er nú dreift frítt í 90 þúsund eintökum inn á heimili landsins sex daga vikunnar. Blaðið fór í gegnum mestu útlitsbreytingar sem blaðið hefur ráðist í í sögu sinni í ágústmánuði en hefur haldið áfram að tapa lestri síðan þá. Lestur blaðsins hjá fólki undir fimmtugu er enn lægri. Nú lesa 45,2 prósent þeirra Fréttablaðið.
Viðskiptablaðið á skriði
Viðskiptablaðið, sem er selt í áskrift og kemur út einu sinni í viku, hefur aukið töluvert við lestur sinn það sem af er þessu ári og í nóvember mældist lestur á blaðinu 13,4 prósent. Það er mesti lestur sem það hefur verið með frá því að það kom aftur inn í mælingar Gallup í júní 2011.
Lestur Morgunblaðsins mælist nú 28,4 prósent, sem er mjög nálægt minnsta lestri sem blaðið hefur nokkru sinni mælst með. Morgunblaðið hefur misst um 35 prósent lesenda sinna á undanförnum sex árum. Samdrátturinn hefur verið sérstaklega mikill hjá Íslendingum undir 50 ára, en nú lesa 19,4 prósent landsmanna í þeirra blaðið. Morgunblaðið hefur verið mun oftar í frídreifingu á undanförnum árum, sérstaklega á fimmtudögum, en það var áður.
Fréttatíminn,
sem fékk nýja eigendur í síðasta mánuði, bætir aðeins við sig í lestri á milli
mánaða. Búist er við því að töluverðar breytingar verði á Fréttatímanum frá og
með áramótum, þegar Gunnar Smári Egilsson og Þóra Tómasdóttir taka við
ritstjórn blaðsins. Þóra Kristín Ásgeirsdóttir var í gær ráðin fréttastjóri
blaðsins.