Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu ásamt Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði og Garðabæ stefna að því að gera samning við Fluglestina Þróunarfélag ehf. um undirbúning að byggingu hraðlestar til Keflavíkurflugvallar. Í síðustu viku var fundað um málið í stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og hjá svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og vonir standa til að lokið verði við gerð samstarfssamnings fyrir lok janúar 2016. Mikilvægt sé að ljúka þeim samningi sem fyrst til að tryggja fé til þróunar verkefnisins, en í næsta skref þarf um 1,5 milljarða króna. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Áætað er að lestin, sem verður raflest, muni ná um 250 kílómetra hraða á klukkustund og að heildarkostnaður við verkefnið verði 105 milljarðar króna. Ferðatíminn milli Leifsstöðvar og áætlaðrar samgöngumiðstöðvar hjá BSÍ í Vatnsmýrinni, sem verður endastöð lestarinnar, er áætlaður 15 til 18 mínútur.
Runólfur Ágústsson, sem starfar hjá Fluglestinni ehf., segir að unnið sé að fjármögnun verkefnisins en að félaginu standa Fasteignafélagið Reitir, Landsbankinn, Ístak, Kadeco og Efla. Þessa aðila hafa þegar lagt um 150 milljónir króna í verkefnið.
Í Fréttablaðinu kemur fram að markmið þeirrar skipulagsvinnu sem er framundar er m.a. að tryggja góðar tengingar við lestarstöðvar í byggð, umferðarmannvirki og samgöngur á yfirborði. Í samningsdrögum, sem blaðið hefur undir höndum, segir: „Með samningnum veita sveitarfélögin vilyrði fyrir að skilgreina nauðsynlegar lóðir í deiliskipulagi og úthluta þeim og/eða byggingarrétti ofan- eða neðanjarðar vegna framkvæmdarinnar til þróunarfélagsins.“
Mikil aukning og lest á sporið innan áratugar
Runólfur sagði við RÚV í apríl síðastliðnum að hraðlestin yrði komin á sporið innan áratugar. Þá átti enn eftir að stofna hlutaféalg utan um verkefnið, en þeim áfanga er nú lokið. Runólfur sagði þá að verkefnið væri hagkvæmt og að arðsemi þess hafi aukist.
Ljóst er að umferð um Keflavíkurflugvöll mun aukast mikið á allra næstu árum. Spá sem Isavia, sem á og rekur flugvelli landsins, birti í lok nóvember sagði að 28,4 prósent fleiri farþegar muni fara um Keflavíkurflugvöll á næsta ári en gera það árið 2015. Útlit sé fyrir að heildarfarþegafjöldi verði 4,9 milljonir í ár, sem er um fjórðungsaukning frá árinu 2014. Isavia spáir því að þeir verði 6,25 milljónir á næsta ári.
Til að takast á við þessa miklu aukningu hefur verið unnið að því að auka afkastagetu flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli. Í þeim aðgerðum felst m.a. að klára yfirstandandi stækkanir flugstöðvarinnar, auka afköst til þess að nýta þá fermetra sem fyrir eru betur, auka sjálfvirkni á öllum stigum ferðalagsins um flugstöðina og tryggja betri mönnun. Næsta sumar verður flugstöðvarbyggingin um 16 prósent stærri en hún var í byrjun þessa árs, eða um 65.000 fermetrar. Að auki verða opnuð þrjú ný flugvélastæði.
Þessi aukning verður til þess að hagkvæmni hraðlestar mun aukast.