Vodafone ætlar að grípa til fullra varna vegna lögbanns sem sýslumaðurinn í höfuðborgarsvæðinu lagði á fyrirtækið í dag að beiðni Símans. Lögbannið snýr að miðlun sjónvarpsefnis SkjásEins með Tímavél og Frelsi í Vodafone Sjónvarpi. Í tilkynningu frá Vodafone segir að lögbannið sé bráðabirgðaaðgerð sem feli ekki í sér ítarlega efnismeðferð. Fyrirtækið ætlar sér að grípa til fullra varna í staðfestingarmáli sem gert er ráð fyrir að Síminn höfði í framhaldinu og mun þar standa fast gegn „þeirri þróun að markaðsráðandi fyrirtæki reyni að gera sjálfsagða þjónustu sem þessa að aðgreinandi samkeppnisþætti á kostnað neytenda."
Fjarskipti hf., sem á og rekur Vodafone á Íslandi, hefur fram til þessa neitað kröfum Símans um að hætta að bjóða viðskiptavinum Vodafone Sjónvarps tímavél á SkjáEinum þrátt fyrir beiðnir þar um. Fyrirtækið telur það skýrt í gildandi samningi milli þess og Símans að það hafi skýra heimild til að miðla efninu með þessum hætti og því sé ekki um að ræða bein brot á höfundarrétti. Síminn er því ósammála.
Vodafone segir það mat sitt að aðgerðir Símans, sem markaðsráðandi aðila á fjarskiptamarkaði, séu samkeppnishamlandi og í andstöðu við bæði samkeppnis- og fjölmiðlalög. Bæði Samkeppniseftirlitið og Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) séu með þær til rannsóknar.„Auk rannsóknar Samkeppniseftirlitisins á misnotkun markaðsráðandi stöðu Símans á fjarskiptamarkaði hefur PFS m.a. það hlutverk að hafa eftirlit með tilteknum ákvæðum fjölmiðlalaga, að fenginni umsögn Fjölmiðlanefndar. Á þessum grundvelli hefur PFS til rannsóknar hvort aðgerðir Símans, sem í kjölfar lögbannsins fela í sér að eingöngu er unnt að miðla hliðruðu sjónvarpsefni SkjásEins um fjarskiptanet Símans, séu í andstöðu við 5. mgr. 45. gr. fjölmiðlalaga."