Leigubílaþjónustan Uber er nú metið á 62 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur ríflega átt þúsund milljörðum króna. Fyrirtækið er að ljúka nýrri fjármögnun, upp á 2,1 milljarð Bandaríkjadala, eða sem nemur um 270 milljarða króna, samkvæmt fréttum Bloomberg í dag.
Uber hefur vaxið ógnarhratt frá því það var stofnað, í mars 2009, og stefnir nú að því að þróa þjónustuna áfram og þá deilihugsun sem býr að baki þjónustunni. Einkum eru það pakka- og matarsendingar í borgum sem Uber einblínir nú á, og mun það fjármagn sem fyrirtækið er nú að sækja sér, fara í vöruþróun á þessum sviðum, auk þess sem styrkja á vöxt fyrirtækisins á hinu ýmsu mörkuðum á erlendum vettvangi.
Meira en átta milljónir manna nota Uber reglulega á heimsvísu, og eru ökumenn undir merkjum Uber rúmlega 160 þúsund.
Þjónustan er í boði í 290 borgum, og er meðalfjöldi ferða á dag um ein milljón, samkvæmt upplýsingum sem DMR tók saman.
Ryan Graves, yfirmaður alþjóðasviðs Uber, kom hingað til lands í ágúst, og lofaði því þá, í viðtali við mbl.is, að Uber yrði valkostur fyrir Íslendinga innan skamms.