Vefsíða Business Insider tekur daglega saman lista yfir tíu mikilvægustu hlutina sem eru að gerast í heiminum í dag, að þeirra mati. Málþóf eða ekki málþóf á Alþingi Íslendinga kemst ekki á blað að þessu sinni, en það gerir ýmislegt annað áhugavert.
- Donald Trump finnst það mikill heiður að Vladimír Pútín Rússlandsforseti hafi lýst yfir aðdáun á hæfileikum Trump.
- Stórfyrirtækið Apple hefur tilkynnt að Jeff Williams hafi verið hækkaður í tign og sé nú rekstrarstjóri (COO). Williams var áður yfirmaður birgðakeðju fyrirtækisins, sem er sama starf og núverandi forstjórinn Tim Cook sinnti þegar Steve Jobs var forstjóri.
- JPMorgan fjárfestir nú grimmt í næstu kynslóð tækni og slíkar fjárfestingar eru á meðal helstu forgangsfjárfestinga á næsta ári, samkvæmt minnisblaði sem Business Insider hefur séð.
- Martin Shkreli var handtekinn af alríkislögreglunni í Bandaríkjunum í gær, grunaður um svik. Hann komst í fréttirnar fyrr á árinu þegar hann hækkaði verð á lyfjum, m.a. malaríulyfjum, upp úr öllu valdi.
- Vogunarsjóðsstjórinn Jim Chanos varar OPEC ríkið við og segir að þau eigi að dæla út olíu núna vegna þess að eftir 15 ár gæti hún verið lítils virði.
- Fjöldi fólks sem hefur þurft að yfirgefa heimkynni sín á þessu ári er líklega miklu meira en 60 milljónir, sem er met. Þetta segja Sameinuðu þjóðirnar, og segja helstu ástæður vera stríðið í Sýrlandi og átök á öðrum stöðum.
- Amazon gæti fljótlega farið að leigja að minnsta kosti 20 fragtflugvélar með það markmið að fyrirtækið sjái sjálft um slíka flutninga innan Bandaríkjanna.
- Repúblikaninn Jeb Bush og hans fólk skoðar nú hvort hægt sé að draga til baka stuðning við þann frambjóðanda sem verður forsetaframbjóðandi flokksins á endanum, ef ske kynni að sá frambjóðandi yrði Donald Trump. Venjan er að frambjóðendur sem tapa styðji við þann sem vinnur, en þetta þykir merki um andúð Bush á Trump.
- Tveir grunaðir meðlimir Íslamska ríkisins voru handteknir á stærsta flugvelli Istanbúl í Tyrklandi, eftir að þeir reyndu að smygla að minnsta kosti 150 evrópskum vegabréfum til Tyrklands.
- 2016 verður hlýjasta árið nokkru sinni, samkvæmt nýrri spá frá bresku veðurstofunni.
Auglýsing