Norðurál vísar á bug ásökunum Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, í garð stjórnenda fyrirtækisins um að nær öll gagnrýni sem beinist að Landsvirkjun í opinberri umræðu sé á ábyrgð Norðuráls. Þá hafnar fyrirtækið því að það stýri Verkalýðsfélagi Akraness. Í tilkynningu frá því segir að allir sjái að þessar fullyrðingar séu „út í hött".
„Viðræður um samningsbundna framlengingu orkusamnings milli fyrirtækjanna hafa farið fram af kurteisi og virðingu og góður gangur verið í þeim nýlega. Það er því óvænt og mikil vonbrigði að Landsvirkjun skuli koma fram með þessum hætti eftir nærri 20 ára farsælt samstarf fyrirtækjanna. Norðurál mun áfram vinna af heilindum að samkomulagi við Landsvirkjun og vonar að Landsvirkjun geri hið sama," segir í tilkynningunni.
Auðlindinar okkar, þrýstihópur sem Hörður tjáði sig einnig um í gær, sendi líka frá sér tilkynningu í morgun. Þar er aðdrottnunum Harðar vísað á bug, „Auðlindir okkar er áhugamannafélag um ábyrga nýtingu auðlinda Íslands. Markmiðið er að vekja spurningar um verndun, nýtingu og arðsemi íslenskra auðlinda. Herði Arnarsyni finnst greinilega sumar þessar spurningar mjög óþægilegar. Landsvirkjun er í eigu þjóðarinnar og okkur, eins og öðrum landsmönnum, kemur einfaldlega við, hvernig fyrirtækið fer með orkuauðlindir Íslands. Við teljum varhugavert að Landsvirkjun komist upp með það gagnrýnislaust að blekkja landsmenn, annars vegar með tálsýn um orkusölu í gegnum raforkusæstreng til Bretlands, og hins vegar með fullyrðingum um að það orkuverð, sem fyrirtækið býður, sé samkeppnishæft á alþjóðlegum mörkuðum, þegar tölulegar staðreyndir sanna að svo er alls ekki. Það er grafalvarlegt ef Landsvirkjun stefnir atvinnu fjölda fólks og þjóðarhag í voða með því að verðleggja viðskiptavini sína út af markaðnum."
Undir tilkynninguna skrifar Þorvarður Goði Valdimarsson.
Landsvirkjun sló til baka
Hörður gagnrýndi Norðurál harðlega í fjölmiðlum í gær, líkt og fjallað var um í fréttaskýringu á Kjarnanum. Á blaðamannafundi í gær sagði Hörður m.a. að umræða um raforkusamning Landsvirkjunar og Rio Tinto-Alcan hafa verið dregna inn í þá kjaradeilu sem þar stendur yfir af öðrum en deiluaðilum. Aðspurður um hverjir það væri sagði Hörður: „Stjórnendur Norðuráls, þeir telja að þetta styðji þeirra málstað. Þegar þú ert að semja um tugmilljarða hagsmuni þá beita aðilar öllum aðferðum til þess að styrkja sinn málstað. Það er ekkert óeðlilegt. Hvort þeir séu að ganga lengra núna en áður verða kannski aðrir að meta, en ég tel þessa tengingu mjög óheppilega og mér finnst hún mjög ósanngjörn gagnvart Rio Tinto.“
Aðspurður um hvað það væru sem stjórnendur Norðuráls væri að gera sagði Hörður það vera ljóst, og fullkomlega eðlilegt, að þeir færu víða í samfélaginu til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Auk þess sagði Hörður: „Það er hins vegar alveg rétt að það hafa komið upp hópar manna sem hafa áður ekki tengst orkuumræðu inn í umræðuna. Þeir hafa verið kynntir í viðtölum sem ráðgjafar Norðuráls.“
Viðar Garðarsson.
Þessi hópur sem Hörður talar um er leiddur af manni sem heitir Viðar Garðarsson, viðskiptafræðingi og markaðsráðgjafa, sem blandað hefur sér af miklu afli í umræður um orkumál að undanförnu. Viðar er á meðal þeirra sem heldur úti vettvangnum „Auðlindirnar okkar“ á Facebook, nýstofnaðavefmiðlinum Veggnum og skrifar pistla á vef mbl.is. Í skrifum Viðars og annarra á þessum síðum er talað fyrir lægra orkuverði til stóriðju, lengri orkusölusamningum og gegn lagningu sæstrengs til Bretlands. Þá var Viðar til viðtals í fréttum Stöðvar 2 í byrjun desember. Í kynningu þeirrar fréttar kom fram að Viðar hafi unnið fyrir Norðurál. Í þeirri frétt sagði Viðar að hótun Rio Tinto um að loka álverinu í Straumsvík hafi verið sett fram vegna þungs reksturs, sem megi rekja til of hás orkuverðs.
Hörður sagði þennan hóp og skrif þeirra ekki trufla Landsvirkjun mikið og að samningsviðræður við Norðurál stæðu yfir þrátt þessa stöðu. Þær væru alls ekki í uppnámi. „En það er tekist á.“
Jafnvel þótt að ekki myndi semjast við Norðurál um áframhaldandi kaup á orku væri engin skortur á öðrum áhugasömum kaupendum. Það væri mikill áhugi frá aðilum í kísiliðnaði, sem reka gagnaver og öðrum blönduðum iðnaði fyrir því að kaupa orku frá Landsvirkjun auk þess sem heildsölumarkaður væri alltaf að vaxa. Því væri meiri eftirspurn en framboð.
Þá tjáði Hörður sig einnig um skrif Vilhjálms Birgissonar, formanns Verkalýðsfélags Akraness, sem hefur gagnrýnt Landsvirkjun harðlega undanfarið. Hann sagðist hugsi yfir skrifum Vilhjálms og hvaðan þær upplýsingar sem hann leggi út frá komi. „Ég hef ekki trú á að þær upplýsingar komi frá honum sjálfum. Ég tel að þessar upplýsingar sem Vilhjálmur Birgisson vitnar til komi frá fyrirtækinu [Norðuráli]. Þær upplýsingar eru í sumum tilvikum rangar og í öðrum tilfellum mjög villandi.“