Umtalsverð virkjun vindorku á Íslandi framundan?

Virkjun vindorku getur skipt sköpum fyrir Ísland til framtíðar litið. Ketill Sigurjónsson, lögfræðingur og sérfræðingur í orkumálum, skrifar um möguleikana á þessu sviði.

Ketill Sigurjónsson
vindorka.jpg
Auglýsing

Bæði fólk og og fyrirtæki hér á landi hafa lengi notið þess hversu ódýrt hefur verið að virkja jarðvarmann hér og þó sérstaklega íslensku fallvötnin. Og við erum löngu orðin vön því að svo til öll raforka á Íslandi sé framleidd með þessum hætti.

Umfangsmikil virkjun jarðvarma til raforkuframleiðslu á Íslandi á sér þó ekkert mjög langa sögu og hefur í vissum tilvikum reynst flóknari og dýrari en ætlað var. Nú er svo komið að breyttar aðstæður kunna að valda því að við munum senn upplifa umtalsverða virkjun vindorku.

Hratt lækkandi kostnaður vindvirkjana gæti brátt skapað okkur ný og góð tækifæri til ódýrrar og óvenju umhverfisvænnar raforkuframleiðslu. Þess vegna er sennilega fullt tilefni til að svara spurningunni sem kemur fram í fyrirsögn þessarar greinar játandi.

Auglýsing

Dýrari jarðvarmi og ódýrari vindorka

Í vissum tilvikum eru vindvirkjanir (vindlundir eða vindaflsstöðvar) að verða áhugaverðari kostur hér en að reisa nýjar jarðvarmavirkjanir. Þá er átt við þau svæði á Íslandi þar sem vindskilyrði eru hagstæðust, þ.e. þar sem búast má við sérlega góðri nýtni vindaflsstöðvar (um og yfir 40%).

Næstu jarðvarmavirkjanir á Íslandi verða talsvert dýrar, auk þess sem reynslan hefur sýnt að gætilega þarf að fara til að ofnýta ekki jarðhitaauðlind. Þetta skapar nýjar aðstæður og áhugaverð tækifæri til að huga að fleiri raunverulega vistvænum eggjum fyrir íslensku orkukörfuna.

Sjáum við brátt 300-400 MW af vindafli á Íslandi?

Spám sérfræðinga ber almennt saman um að kostnaður við að virkja vind muni áfram fara lækkandi á komandi árum. Það virðist því líklegt að nýting íslenskrar vindorku verði sífellt álitlegri. Og þar með verði minni þörf eða minni hvati til að skerða náttúruperlur eins og t.d. Eldvörp (jarðvarmi) eða Hólmsá (vatnsfall).

Þetta gæti haft töluverð áhrif á þróun orkugeirans hér á Íslandi. Eftir um áratug kunna að verða hér komnar vindvirkjanir með samanlagt afl upp á u.þ.b. 300-400 MW. Og til framtíðar kann nýting vindorku hér að skila okkur álíka raforkumagni eins og u.þ.b. fimm Búðarhálsvirkjanir og  færa þjóðinni nýjar og verulegar útflutnings- og gjaldeyristekjum.

Árangursrík tilraunaverkefni

Sífellt aukin hagkvæmni vindorkunnar síðustu árin er í góðu samræmi við það sem bent var á í skýrslu sem unnin var fyrir þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti árið 2009. Þar voru íslensk stjórnvöld hvött til að kanna sérstaklega þennan valkost til raforkuframleiðslu. Og þá einkum gangast fyrir meiri rannsóknum á aðstæðum hérlendis til slíkrar framleiðslu fyrir tilstilli vindsins.

Síðan þá hefur Veðurstofa Íslands, í samvinnu við fleiri rannsóknastofnanir, unnið að ýmsum rannsóknum um vindorku og þróað líkan um vindafar á Íslandi. Í árslok 2012 reisti Landsvirkjun tvær nokkuð stórar vindmyllur ofan við Búrfell. Rúmu ári síðar reisti Biokraft ehf. tvær nokkru minni og eldri (notaðar) vindmyllur við Þykkvabæ í Rangárþingi ytra. Árangur þessara tveggja verkefna hefur til þessa verið það góður að bæði umrædd fyrirtæki vinna nú að undirbúningi miklu stærri vindorkuverkefna.

Löng hefð er fyrir jarðvarmavirkjunum hér á landi. Líklegt er að meiri áhersla verði á virkjun vindorku í framtíðinni, hér á landi.

Fyrstu íslensku vindvirkjanirnar gætu risið á allra næstu árum

Óvíst er hversu hratt verður farið í virkjun vindorku á Íslandi. Í dag er staðan sú að til stendur að reisa hér a.m.k. fjóra vindlundi eða vindvirkjanir. Ef allar þessar áætlanir ganga eftir verður vindorka senn nýtt í umtalsverðum mæli til raforkuframleiðslu hér á landi. Það gæti orðið innan örfárra ára, en gæti líka tafist af ýmsum ástæðum. T.d. hefur komið fram að Landsvirkjun ætli að láta sín vindorkuverkefni sæta mati Rammaáætlunar, sem er reyndar ekki skylt skv. lögum. Þetta kann að tefja þessi verkefni Landsvirkjunar talsvert.

Vindlundir, vindvirkjanir, vindorkuver eða vindaflsstöðvar?

Hér er vert að nefna í framhjáhlaupi að af hálfu Landsvirkjunar er oft talað um þessi verkefni sem vindlundi. Íslenskufræðingar hafa bent greinarhöfundi á að orðið „vindlundur“ sé tæplega heppilegt hugtak um virkjanir af þessu tagi. Orðið lundur (sbr. trjálundur) veki hugrenningar um skjól fyrir vindi. Vindvirkjanir munu að sjálfsögðu síst rísa á skjólríkum svæðum og það sem skiptir hér kannski meira máli er að slík mannvirki veita tæplega almennilegt skjól fyrir vindi eða veðrum.

Auk þess þykir sumum sem endurtekni samhljóðaklasinn „nd“ í orði sé fremur vond íslenska og tungubrjótur (þó svo dæmi séu til um þannig orð í íslensku). Hugtakið vindlundur kann því að þykja hálfgert orðskrípi. Og jafnvel bera með sér að vera smíðað sem áróðurskennt hugtak/orð í þeim tilgangi að milda hughrif fólks gagnvart þeim áhrifum sem svona mannvirki hafa á umhverfið. Þar er einkum um að ræða sjónræn áhrif.

Með þessar ábendingar í huga álítur sá sem þetta skrifar eðlilegast að talað sé um vindvirkjun , vindorkuver eða vindaflsstöð þegar lýsa skal umtalsverðum fjölda eða klasa af vindmyllum. Þ.e. mörgum háum turnum með stórum spöðum og öflugum hverflum, sem líta má á sem eina heild (eina virkjun).

Hugtakið vindvirkjun kann þó að minna full mikið á vindverk! Enn einn möguleiki er vindgarður. Á endanum ræðst þetta íslenska nafnorð um það sem á ensku er oft kallað wind farms og á dönsku vindpark væntanlega af því hvaða málvenja hér myndast. En það er a.m.k. sannarlega tímabært að huga vel að góðu íslensku orði um þessi myndarlegu hátæknimannvirki.

Landsvirkjun áformar stærstu vindvirkjunina

Þau fjögur umræddu vindorkuverkefni sem hafa verið til skoðunar hér á síðustu árum eru eftirfarandi. Fyrst er að nefna tvær fyrirhugaðar vindaflsstöðvar Landsvirkjunar, annars vegar 200 MW vindvirkjun nokkru ofan við vatnsaflsvirkjunina Búrfellsstöð og hins vegar 100 MW vindvirkjun við Blöndustöð. Þessar tvær fyrirhuguðu vindvirkjanir hefur Landsvirkjun kallað Búrfellslund og Blöndulund.

Þá er fyrirhuguð 45 MW vindvirkjun Biokraft í Þykkvabæ, sem kölluð er Vindaborg. Og loks hefur fyrirtæki sem nefnist Arctic Hydro áform um 20-30 MW vindaflsstöð í Austur Landeyjum.

Vindaðstæður þarna sunnarlega í Rangárvallasýslu eru líklega mjög góðar og þessi verkefni því bæði mögulega vel staðsett m.t.t. hagkvæmni. En sökum þess að bæði verkefnin eru fyrirhuguð á miklu flatlendi, innan sveitabyggðar með útsýni til fjalla, jökuls og eyja, þá yrðu sjónræn áhrif af þessum virkjununum óhjákvæmilega töluverð.

Gæta þarf vel að sjónrænum áhrifum

Það eru einmitt neikvæð sjónræn áhrif sem helst mæla gegn vindvirkjunum (hér er vert að nefna að almennt virðast svona mannvirki ekki valda miklum fugladauða en þó vissulega einhverjum). Af þessum sökum er hætt við að umrædd verkefni Arctic Hydro og Biokraft muni mæta andstöðu. Reyndin er þó auðvitað sú að í dag mætir hvert einasta orkuverkefni margvíslegri andstöðu. Og hið eðlilegasta mál að um þau sé ítarlega fjallað og vandlega gætt að öllum mögulegum áhrifum slíkra verkefna áður en endanleg ákvörðun er tekin.

Uppbyggingarhraðinn er óviss

Enn er óvíst hvort öll framangreind fjögur vindorkuverkefni verða að veruleika. Hið sama má segja um fimmta og nýjasta vindorkuverkefnið. Þar er nú unnið að staðarvali í því skyni að reisa vindvirkjanir hér með verulegu afli. Tekið skal fram að höfundur þessarar greinar kemur að því verkefni og eðlilegt að lesendur hafi það í huga. Mögulega eru svo önnur verkefni áformuð, hvort sem eru smærri verkefni á einstökum jörðum eða stærri verkefni sem kunna að vera greinarhöfundi ókunn.

Ekki er unnt að fullyrða um það hver uppbyggingarhraðinn verður á vindvirkjunum á Íslandi og margt getur tafið verkefni af þessu tagi.  Miðað við áætluð verkefni og kostnaðarsamanburð  við jarðvarma má þó telja raunhæft að eftir u.þ.b. áratug eða svo verði vindvirkjanir á Íslandi á bilinu 300-400 MW, eins og áður sagði. Spár af þessu tagi eru þó óhjákvæmilega háðar verulegri óvissu.

Áformin (370 MW) nema um tveimur Búðarhálsvirkjunum

Samanlagt heildarafl þeirra fjögurra vindvirkjana sem nefndar voru hér að framan yrði nálægt 370 MW. Athuga ber að fimmta vindorkuverkefnið, sem einnig var nefnt, er viðbót við þetta fyrirhugaða vindafl. Umrædd fjögur verkefni upp á 370 MW gætu skilað nálægt 1.300 GWst af raforku árlega. Sú raforka er ámóta mikil eins og framleiðsla rétt rúmlega tveggja Búðarhálsvirkjana.

Kostnaður þessara fjögurra vindvirkjana myndi verða nokkru meiri pr. framleidda MWst en gerist hjá Búðarhálsvirkjun. Enda eru stórar vatnsaflsvirkjanir almennt ódýrasta aðferðin til raforkuframleiðslu. Það er því vafalítið fyrst og fremst nýting jarðvarma hér sem íslensk vindorka mun keppa við eða hægja á. Sennilega er þó eðlilegast að lýsa nýtingu vindorku einfaldlega sem góðri og skynsamlegri viðbót í íslenska orkugeirann.

Allt að 1.600 MW innan tveggja áratuga?

Hér í lokin er vert að nefna yfirlit Kviku/Pöyry um það hvernig þau fyrirtæki telja sennilegt að uppbygging raforkuframleiðslu á Íslandi verði næstu tvo áratugina. Samkvæmt þeirra áliti, sbr. skýrslan Raforkusæstrengur milli Íslands og Bretlands - kostnaðar- og ábatagreining, eru álitnar litlar líkur á því að vindvirkjun rísi hér hér nema jafnhliða sæstreng.

Einungis í s.k. hárri sviðsmynd Kviku/Pöyry, sem miðast við mjög mikla aukningu á eftirspurn hér eftir raforku, gerir skýrslan ráð fyrir íslenskum vindaflsstöðvum án sæstrengs. Þarna kunna Kvika og Pöyry að hafa vanmetið hagkvæmni vindorkunnar á Íslandi miðað við aðra orkukosti, enda er umfjöllunin um vindinn í viðkomandi skýrslu fremur snubbótt. Að þessu verður vikið nánar í síðari hluta þessara skrifa um íslenska vindorku.

Er þá lokið þessari fyrri grein um líklega uppbyggingu vindvirkjana á Íslandi.  Í síðari hlutanum verður útskýrt nánar af hverju nýting vindorku á Íslandi er áhugaverð og fjallað um það að mögulega munu vindaflsstöðvar á Íslandi verða með samanlagt afl allt að 1.600 MW jafnvel innan tveggja áratuga. Þar með gæti íslenska rokið orðið mikilvæg og verðmæt náttúruauðlind og skapað þjóðinni góðar tekjur. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Hver er stefna stjórnmálaflokkanna í umhverfismálum?
Kjarninn 16. september 2021
Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Boðuð útgjaldaaukning Pírata er ekki fullfjármögnuð
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Halldóru Mogensen um að kosningaloforð Pírata séu fullfjármögnuð með nýjum tekjuöflunarleiðum.
Kjarninn 16. september 2021
Jón Steindór Valdimarsson
Drifkraftur nýrra lausna í loftslagsmálum
Kjarninn 16. september 2021
Mikil skekkja er í útreikningum Pírata á helstu tekjuöflunarleiðinni sem flokkurinn sá fyrir að fjármagna kosningaloforð sín með.
Tugmilljarða skekkja í útreikningum Pírata á helstu tekjuöflunaraðgerð þeirra
Þingmaður Pírata segir að flokkurinn sé að endurskoða útreikninga sína á áhrifum 3,75 prósentustiga hækkunar efsta þreps tekjuskattskerfisins, eftir að bent var á að þar skeikaði tugmilljörðum.
Kjarninn 16. september 2021
Jóhann S. Bogason
Vesalings Færeyingarnir
Kjarninn 16. september 2021
Kolefnisgjald leggst meðal annars á bensín og dísil olíu.
Meirihluti stjórnmálaflokka vill hækka kolefnisgjald
Passa verður að kolefnisgjald leggist ekki þyngst á þau sem minnst hafa á milli handanna að mati þeirra flokka sem vilja hækka kolefnisgjald. Útblástur frá vegasamgöngum er helsta uppspretta losunar sem er á beinni ábyrgð Íslands.
Kjarninn 16. september 2021
Liðin tíð að Bandaríkin veiti Íslandi aðstoð „vegna góðvildar“
Íslendingar þurfa tromp á hendi til að vekja áhuga Bandaríkjanna til að styðja landið diplómatísk í alþjóðasamfélaginu og veita viðskiptalegar eða efnahagslegar ívilnanir, að því er fram kemur í þættinum Völundarhús utanríkismála Íslands.
Kjarninn 16. september 2021
Völunarhús utanríksmála Íslands
Völunarhús utanríksmála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 3: Áhugi Bandaríkjanna á Íslandi
Kjarninn 16. september 2021
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None