Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri segir að það sé skýr vilji Illuga Gunnarssonar, mennta- og menningarráðherra, að útvarpsgjald til RÚV lækki ekki. Á opnum fundi fjárlaganefndar í gærkvöldi sagði hann:„Þetta er auðvitað algjörlega galið, algjörlega galin staða fyrir okkur að vera í og fyrir marga aðra. Við erum búin að vera að vinna í átta mánuði eftir plani sem lagt var upp af ráðherra og ráðuneyti og við erum að gera áætlanir þar sem þetta er fast í hendi. Við viljum fá botn í þetta, þannig að fjármögnunin sé tryggð, í það minnsta til fjögurra ára svo við þurfum ekki að standa í þessu á hverju einasta ári.“ Frá þessu er greint á Eyjunni.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra er, samkvæmt nýlegri frétt í Morgunblaðinu, sá sem kemur í veg fyrir að frumvarp Illuga um að útvarpsgjald verði óbreytt á næsta ári, verði afgreitt úr ríkisstjórn. Samkvæmt frumvarpinu átti útvarpsgjaldið að vera áfram 17.800 krónur en ekki lækka í 16.400 krónur, líkt og fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir.
Í frétt blaðsins sem birtist á miðvikudag sagði að frumvarpið sé mjög umdeilt í báðum stjórnarflokkunum.Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, og Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar, séu til að mynda bæði eindregið þeirrar skoðunar að útvarpsgjaldið eigi að lækka. Þar var einnig haft eftir ónafngreindum þingmanni Sjálfstæðisflokksins að hann teldi að meirihluti þingflokks Sjálfstæðisflokks væri andvígur frumvarpinu og sömu sögu sagði ónafngreindur þingmaður Framsóknarflokksins. Fjórir stjórnarandstöðuflokkanna lögðu fram breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið þriðjudag um að útvarpsgjaldið yrði óbreytt á næsta ári. Hún var felld.
Tekjur RÚV munu dragast saman um hátt í fimm hundruð milljónir króna á næsta ári ef útvarpsgjaldið verður lækkað. Stjórnendur RÚV hafa sagt að þeir muni ekki geta uppfyllt þjónustusamning sinn við ríkið ef af verður.
Magnús Geir sagði á fundinum í gærkvöldi að það myndi sjást verulega á dagskrárliðum RÚV ef gjaldið myndi lækka þar sem leikið efni á íslensku myndi minnka. Hann gaf sterklega í skyn að segja þyrfti upp starfsmönnum ef af yrði þar sem launakostnaðurinn væri stærsti útgjaldaliðurinn. Samkvæmt Eyjunni sagði Magnús Geir að minna íslenskt efni myndi leiða til „dómínó-áhrifa“ þar sem hagnaður af auglýsingasölu myndi lækka í kjölfarið.