Donald Trump er lygari ársins að mati bandarísku staðreyndavaktarinnar Politifact, sem kannar staðhæfingar stjórnmálamanna í Bandaríkjunum, og hefur meðal annars hlotið Pulitzer verðlaun fyrir störf sín.
Politifact velur venjulega eina ákveðna lygi, en í þetta skipti gat ritstjórnin ekki valið úr þeim fjölmörgu lygum sem Trump lét út úr sér á árinu, að sögn Arons Sharockman, framkvæmdastjóra Politifact. "Hann hefur fært fram margar stórar og djarfar yfirlýsingar. Því miður eru flestar þeirra ónákvæmar." Ummæli Trump vermdu líka þrjú efstu sætin í kosningu lesenda.
Hann sagði meðal annars að þúsundir manna hafi fagnað í New Jersey þegar tvíburaturnarnir í New York féllu. Þetta var rannsakað ítarlega af Politifact og ekkert rennir stoðum undir þessa staðhæfingu Trump. Hún var því metin haugalygi (Pants on Fire) af Politifact og var lygi ársins að mati lesenda.
Hann sagði einnig að Mexíkó væri að senda vont fólk, nauðgara og eiturlyfjasala, yfir landamærin til Bandaríkjanna, sem er líka haugalygi.
Þá sagði Trump á Twitter að menn af afrískum uppruna bæru ábyrgð á yfir 80 prósentum morða á hvítu fólki í Bandaríkjunum. Það er haugalygi.
Í fyrra var lygi ársins valin ýkjur um Ebólu í Bandaríkjunum. Aðeins tveir létu lífið í tengslum við Ebólu-veiruna í fyrra en þrátt fyrir það var mikill hræðsluáróður í gangi, bæði hjá stjórnmálamönnum og álitsgjöfum í fjölmiðlum.