Lending Falcon 9 geimflaugar SpaceX fyrirtækisins í gærkvöldi, eftir að hafa komið ellefu gervihnöttum frá sér, þykir eitt stærsta skref sem stigið hefur verið, á sviði þróunar geimflauga og ferða um geiminn. „Ég veit ekki hvað ég á að segja, ég er ekki búinn að átta mig á þessu ennþá, ég trúi þessu ekki enn,“ sagði Elon Musk, hinn 44 ára gamli stofnandi og stjórnandi SpaceX, á blaðamannafundi eftir lendinguna.
Hann var í skýjunum, en þessi áhrifamikli frumkvöðull, sem einnig er stofnandi Tesla Motors og PayPal, hefur sett sér það markmið að stórefla þróun geimflauga, með það að markmiði að draga úr kostnaði, umhverfisáhrifum og gera almenningi það mögulegt að ferðast út í geiminn, og í framtíðinni „setjast þar að“.
SpaceX hefur unnið að því að draga úr kostnaði við geimskot með því að gera fyrsta þrep Falcon-eldflaugarinnar endurnýtanlegt, og þykir lendingin í gær staðfesta að fyrirtækið sé á réttri braut, og hafa burði til þess að hafa afgerandi áhrif á gang mál í geimvísindum á næstu árum.
Musk segist sannfærður um að við mannfólkið á jörðinni þurfum að leggja meiri áherslu á að þróa ferðir um geiminn, og þar er lendingartækni algjört lykilatriði að frekari framþróun. Ekki síst þess vegna þykir lendingin í gær mikið afrek.
Hann lýsti lendingunni beint á Twitter, og staðfesti lendinguna á jörðu niðri, eftir ferð níu mínútna flugferð. „Velkomin aftur, elskan“ sagði hann í færslu sinni.
Á vef breska ríkisútvarpsins BBC, er þessum tímamótum lýst sem miklum framfaraatburði í geimvísindum en mikil fagnaðarlæti brutust út í höfuðstöðvum SpaceX í nótt þegar fyrirtækinu tókst að lenda fyrsta þrepi Falcon-eldflaugar sinnar í fyrsta skipti, eftir misheppnaðar tilraunir til þessa.
Afrekið markar tímamót fyrir SpaceX en markmiðið með að lenda eldflaugarþrepinu er að draga verulega úr kostnaðinum við geimskot.
Hjá SpaceX starfa nú ríflega fjögur þúsund starfsmenn, en fyrirtækið er með höfuðstöðvar í Kaliforníu. Elon Musk er bæði forstjóri fyrirtækisins, og yfirmaður tækniþróunar.
Fastlega er búist við því að vel heppnuð lending Falcon 9 muni styrkja stoðir SpaceX, og enn fremur efla þróun geimflauga og geimvísinda.
Lendingin kemur í kjölfarið á því, að bandarísk stjórnvöld ákváðu að auka fjárveitingar til NASA, geimvísindastofnunar Bandaríkjanna, til mikilla muna fyrir næsta ár eða um sem nemur um 1,2 milljörðum Bandaríkjadala. Í heild mun NASA fá 19,3 milljarða Bandaríkjadala. Það er upphæð sem nemur um 2.400 milljörðum króna.
„Við erum rétt að byrja,“ sagði Musk, eftir lendinguna.