Samráðherrar Gunnars Braga Sveinsson
utanríkisráðherra eru ósáttir með hversu afdráttarlausar yfirlýsingar hans hafa
verið um áframhaldandi þátttöku Íslands í refsiaðgerðum gegn Rússum vegna
innrásar þeirra á Krímskaga, en Gunnar Bragi sagði í viðtali við DV fyrir helgi
að sá stuðningur hafi þegar verið endurnýjaður. Í Fréttablaðinu í dag segir að
bæði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, vilji
fara sér hægt í yfirlýsingar um afstöðu Íslands gagnvart áframhaldandi banni.
Ráðherrar í ríkisstjórninni eru einnig ósáttir vegna þess að íslensk stjórnvöld hafi ekki tekið neina formlega ákvörðun um að framlengja stuðning sinn við viðskiptaþvinganirnar og þurfi ekki að gera það fyrr en í janúar. Auk þess er forsætisráðuneytið að láta vinna fyrir sig skýrslu um þessar mundir um viðskiptasögu Íslendinga og Rússa og áhrif viðskiptabannsins á íslenskt efnahagslíf.
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) hafa mjög látið heyra í sér vegna ákvörðunarinnar á undanförnum dögum. Í gær birtust greinar eftir Kolbein Árnason, framkvæmdastjóra SFS, og Hauk Þór Hauksson, aðstoðarframkvæmdastjóra þeirra, í Morgunblaðinu annars vegar og Fréttablaðinu hins vegar, þar sem afstaðan var gagnrýnd og sagt að stuðningur Íslands í aðgerðunum væri einungis táknrænn. Undir væru hins vegar tugmilljarða markaðir með uppsjávarfisk. Kolbeinn endurtók þessa afstöðu í beinni útsendingu í fréttum Stöðvar 2 í gær.
Getum ekki látið prinsippafstöðu víkja fyrir stundarhagsmunum
Gunnar Bragi Sveinsson sagði í viðtali við DV fyrir helgi að viðskiptabannið sem Rússar settu á vörur frá Íslandi hafi verið erfiðasta mál sem hann hafi tekist á við í embætti. Hann sagðist einnig hafa saknað þess að skynja ekki meiri stuðning við mikilvægi þeirra sjónarmiða sem Íslendingar hefðu lagt upp með í málinu. „Auðvitað eru miklir hagsmunir undir á Íslandi. Þetta kemur illa við ákveðin byggðarlög að einhverju leyti en er samt ekki jafn slæmt og hagsmunaaðilar í sjávarútvegi vildu meina í upphafi. Það er bara þannig að við getum ekki látið prinsippafstöðu víkja fyrir stundarhagsmunum, þó þeir séu verðmiklir. Við erum smáríki og leggjum okkar upp úr því að alþjóðlegir sáttmálar og samningar haldi."
Útgerðarmenn héldu því fram síðasta sumar að tjón Íslands vegna ákvörðunarinnar yrði gríðarlegt og mikill þrýstingur skapaðist, bæði pólitískt og úr viðskiptalífinu, um að taka viðskiptalega hagsmuni íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja fram yfir þann málstað sem Ísland var að sýna samtöðu í málinu.
Gunnar Bragi brást við hart við slíkum málflutningi og í viðtali við Sprengisand í ágúst sagði hann það óheiðarlegt hvernig sumir útgerðarmenn hafa talað um ákvörðun Íslands um að styðja viðskiptaþvinganir gegn Rússum. Ef menn taki eiginhagsmuni fram yfir heildarhagsmuni þá velti hann því óneitanlega fyrir sér hvort þeir séu bestu mennirnir til að fara með auðlindina.
Aldrei upplifað annan eins þrýsting
Gunnar Bragi segir í viðtalinu við DV að hann hafi aldrei upplifað neitt í líkingu við þann þrýsting sem hann var beittur í málinu. „Það er óhætt að segja að þrýstingurinn sé af ýmsum toga og úr ýmsum áttum. En það hafa engin rök verið færð fram þannig að ástæða sé til að breyta þessu. Þetta hefur verið mjög þungt og ég hef fundið að það voru alltof margir í samfélaginu sem eru reiðubúnir til að taka til fótanna þegar svona þrýstingur myndast. En þá verður maður sjálfur að setjast niður og hugsa hvað er rétt og hvað er rangt, hvað er eðlilegt og hvað er óeðlilegt.[...]Þetta er umdeilt innan flokksins[Framsóknarflokksins)[...]Það eru vissulega aðilar innan flokksins sem hafa ekki verið hrifnir af þessu. Þeir hafa sín rök, þó ég sé ekki sammála þeim."