Besta jólagjöf tónlistarunnenda er, eins og örugglega svo oft áður, Bítlarnir. Nú má hlusta á Bítlana, vinsælustu hljómsveit 20. aldarinnar, á streymisveitum á vefnum. Spotify, Apple Music, Google Play Music, Tidal og hvarvetna annarstaðar má hlust á allt Bítlasafnið hafi maður áskrift. Þetta markar nokkur tímamót í sögu streymisveitna þar sem Bítlana hefur ávalt vantað.
Hér er lagið Tomorrow Never Knows sem kom út á plötunni Revolver árið 1966. Það er framúrstefnulegt og gæti vel átt heima á breskri rokkplötu á 21. öldinni enda voru Bítlarnir löngu á undan sinni samtíð í mörgu.
Upprunalegar plötur sveitarinnar eru allar í boði auk safnplatna á borð við Past Masters, 1962 - 1966 og 1967 - 1970. Þar utan má finna nýjustu Bítlaútgáfuna, safnplötuna 1 sem geymir bestu lög sveitarinnar. 1 var endurhljóðblönduð og útsett í hljóðveri Bítlana, Abbey Road, og kom út í ár.
Bítlasafnið var gert aðgengilegt í nótt. Af því tilefni hefur Spotify útbúið sérstaka Bítlasíðu þar sem fólk getur deilt uppáhalds Bítlalaginu sínu. Harðir aðdáendur og Bítlafræðingar munu þó taka eftir að fáeina hluti vantar í Bítlasafn veraldarvefsins. The Verge tók saman aðalatriðin sem enn á eftir að vígja á veraldarvefinn. Eru það allt útgáfur sem gerðar voru eftir að hljómsveitin lagði upp laupana árið 1970.
Útgáfurnar eru: The Beatles Anthology (1995) , Let It Be… Naked (2003), Live at the BBC (1994), Love (2006) og The Beatles in Mono (2009).
Tveir af meðlimum Bítlana eru enn á lífi, þeir Ringo Starr og Paul McCartney. George Harrison og John Lennon eru fallnir frá. Spotify hefur allt frá stofnun staðið í samningaviðræðum við höfundarrétthafa efnis Bítlana um að fá að dreifa efninu en ekki haft erindi sem erfiði nú. Má gera ráð fyrir að tilkoma Apple á markað streymisveitna á árinu hafi haft nokkuð að segja um þessi tímamót enda er það frægt að Steve Jobs, annar stofnanda Apple, var gríðarlegur Bítlafan.
Síðasta platan sem Bítlarnir gáfu út var Let It Be árið 1970. Hér að neðan má hlusta á Spotify.