Athafnakonan Þórdís Sigurðardóttir, fyrrum stjórnarformaður Teymis og systir Hreiðars Más Sigurðssonar, segir að bróðir sinn sitji í fangelsi „af því að þjóðin hefur úthýst honum“. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu sem hún setti inn á Facebook í dag. Hreiðar Már, sem er fyrrum forstjóri Kaupþings á Íslandi, hefur hlotið nokkra þunga dóma vegna hrunmála og afplánar nú sex ára fangelsisdóm á Kvíabryggju. Hann bíður auk þess dóms í svokölluðu CLN-máli þar sem sérstakur saksóknari hefur farið fram á að ákvæði um hegningarauka verði nýtt þannig að Hreiðar fái alls níu ára dóm.
Þórdís segir að meðferðin á bróður hennar og framkoma gagnvart honum sé „Íslandi til skammar því aftur og aftur hafa grundvallar reglur réttarfarsins verið brotnar. Allir hafa horft í gegnum fingur sér með það - þetta er of stórt til að klikka á einhverjum lagalegum atriðum. Þjóðin og embættismenn hennar telja sér trú um að þetta sé gert til að fullnægja réttlætinu - sefa reiði þjóðarinnar. Það hafi verið óeðlilegt hvernig og hvað var í gangi á árunum í uppganginum. Það beri að refsa!.“
Verið að byggja sjúkrahús fyrir peninganna úr bankanum
Hún segir bróður sinn ekki vera sakaðan um að hafa hagnast á gjörðum sínum í einu einasta máli sem höfðað hefur verið gegn honum. „Nei, en samt skal hann sitja inni og það eru engir smá dómar takk fyrir. Í fyrstu var logið upp á að hann hefði stolið öllu verðmætum úr bankanum en hvað hefur komið í ljós - íslenska ríkið er að verða skuldlaust og það sem meira er það á að byggja nýtt sjúkrahús fyrir peninga og eignir sem voru í bankanum - ég spyr hver er glæpamaðurinn? Hver stelur hverju frá hverjum?
Á árinu 2016 á ég þá ósk heitasta að illska og hatur hætti, ég á þá ósk að réttarkerfið og þeir sem bera ábyrgð á því átti sig á því óréttlæi og skömm sem hefur viðgengist. Ég á þá ósk að þjóðin snúi frá heiftri og hatri. Ég á þá ósk að réttlæti einkenni ákvarðanir og gjörðir. Er það of mikið? Ég á þá ósk að ég elski Ísland!“
Þórdís segir líka frá því að hún og fjölskylda hennar hafi fengið hinn hollenska Angelo í heimsókn yfir hátíðarnar, en hann bíður örlaga sinna eftir að hafa verið kærður fyrir að smygla 23 kílóum af fíkniefnum til landsins í slagtogi við tvo aðra menn. Fréttablaðið hafði áður greint frá því að Þórdís ætlaði sér að bjóða Angelo í mat yfir hátíðarnar og að Hreiðar Már hefði kennt honum á þvottavél á meðan að þeir afplánuðu saman á Kvíabryggju.