Brynja Þorgeirsdóttir, sem verið hefur ritstjóri Menningarinnar í Kastljósi í haust, mun hætta í þáttunum á nýju ári til að einbeita sér að gerð nýrrar þáttaraðar af Orðbragði. Auk þess mun hún sinna annarri dagskrárgerð. Í hennar stað mun Bergsteinn Sigurðsson, sem stýrt hefur Síðdegisútvarpi Rásar 2 og unnið menningartengd innslög í Kastljósi, taka við ritstýringu Menningarinnar.
Guðmundur Pálsson, Baggalútur og dagskrárgerðarmaður, mun taka við hlutverki Bergsteins í Síðdegisútvarpinu og stýra því ásamt Björgu Magnúsdóttur og Atla Má Steinarssyni á komandi ári. Guðmundur gekk nýverið aftur til liðs við RÚV eftir að hafa ferðast um Evrópu með fjölskyldu sinni. Hann færði ferðasöguna til heimilda í Hlaðvarpi Kjarnans í þáttunum „Pabbi þarf að keyra“.
Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri sjónvarps hjá RÚV, staðfestir þessar breytingar í samtali við Kjarnann.
Í ágúst síðastliðnum var ákveðið að leggja niður menningarþáttinn Djöflaeyjuna og efla þess í stað menningarumfjöllun í Kastljósinu. Engar aðrar mannabreytingar eru fyrirhugaðar hjá fréttaskýringa- og þjóðmálaþættinum.
Orðbragð er skemmtiþáttur í umsjón Brynju og Braga Valdimars Skúlasonar, sem einnig hefur löngum verið kenndur við Baggalút. Meginviðfangsefni þáttanna er íslenskt tungumál. Orðbragð var valinn skemmtiþáttur ársins á Eddunni árið 2014 og 2015. Sú þáttaröð sem unnið er að nú verður sú þriðja í röðinni.