Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, flutti færri ávörp og formlegar kveðjur á þessu ári en nokkru sinni fyrr frá árinu 1996. Þetta kemur fram í grein Guðna Th. Jóhannessonar, dósents í sagnfræði við Háskóla Íslands, í Kjarnanum í dag.
„Í árslok er málum því svo komið að hinn sterki, bjartsýni og óútreiknanlegi forseti hefur helgað sér sviðið og athyglina. Efst á lista tímaritsins Man um hundrað valdamestu Íslendingana trónaði Ólafur Ragnar Grímsson. Í könnunum á árinu var naumur meirihluti landsmanna einatt ánægður með störf forseta, um fjórðungur ekki og hinir tóku ekki afstöðu. Forseti virtist enn í fullu fjöri þótt merkja megi af dagskrá hans að atorkan er ekki eins mikil og áður. Þannig flutti Ólafur færri ávörp og formlegar kveðjur á þessu ári en nokkru sinni fyrr frá 1996,“ skrifar Guðni í greininni.
Forsetaembættið birtir á heimasíðu sinni yfirlit yfir ræður og ávörp forsetans og miðað við þann lista fyrir árið 2015 hafa ræður, fyrirlestrar og ávörp verið 22 talsins á þessu ári. Það er þessi listi sem Guðni vísar í.
Þess er vænst að Ólafur Ragnar tilkynni það í nýársávarpi sínu 1. janúar hvort hann hyggst láta af embætti í sumar eða bjóða sig fram til forseta í sjötta skipti. Hann tilkynnti það raunar í nýársávarpinu í byrjun 2012 að hann hygðist ekki bjóða sig fram en snérist svo hugur eftir áskoranir um að halda áfram. Árið 2011, árið fyrir síðustu kosningar, flutti Ólafur Ragnar 42 ávörp og formlegar kveðjur.