Barack Obama Bandaríkjaforseti ætlar að grípa til aðgerða til að stemma stigu við byssuofbeldi í landinu. Hann mun gera þetta framhjá Bandaríkjaþingi, og segir að það sé vegna þess að þingið hefur ekki viljað taka á því vaxandi vandamáli sem byssuofbeldi sé.
Obama tilkynnti þetta í nýársávarpi sínu, og sagðist ætla að funda með dómsmálaráðherranum Lorettu Lynch á mánudag til að ræða kostina í stöðunni. Hann hefði óskað eftir því við starfsfólk sitt í Hvíta húsinu fyrir nokkrum mánuðum að skoðað yrði hvaða aðgerða forsetinn gæti gripið til. „Vegna þess að ég fæ of mörg bréf frá foreldrum, og kennurum, og börnum, til þess að sitja hjá og gera ekkert.“ Hann sagðist einnig fá bréf frá ábyrgum byssueigendum, sem væru sammála honum um það að bandaríska stjórnarskráin veiti almenningi réttinn til vopnaburðar, en að hægt sé að vernda þann rétt og á sams tíma koma í veg fyrir að fáir og hættulegir einstaklingar geti valdið miklum skaða.
Washington Post greinir frá því að meðal þess sem forsetinn hyggist gera séu víðtækari bakgrunnsskoðanir, en að pakkinn sem ráðist verður í sé ekki tilbúinn.
Þetta er síðasta ár Obama í embætti forseta Bandaríkjanna, en nýr forseti verður kjörinn í nóvember. Obama mun láta af völdum 20. janúar árið 2017.