Andri Snær Magnason rithöfundur hefur forðast spurninguna um hvort hann hafi hugsað að bjóða sig fram til forseta Íslands eins og heitan eldinn en hefur hugsað alvarlega um það. Eina ástæðan fyrir því að hann hefur ekki neitað spurningunni er hversu áhugaverðir tímar eru núna. „Ég held að flestir vilji aukin völd og ný stjórnarskrá færir öryggisventilinn frá forseta til þjóðarinnar. Þarna er kafli um hvernig ákveðinn hluti landsmanna getur skotið málum til þjóðaratkvæðis.“ Þetta kemur fram í viðtali við Andra Snæ í Fréttablaðinu í dag. Ólafur Ragnar Grímsson tilkynnti í gær að hann muni ekki bjóða sig aftur fram til forseta og því verður nýr kosin í júní 2016.
Andri Snær nefnir Icesave-málið sem gott dæmi um mál þar sem grasrótarhreyfing, InDefence-hópurinn, hafi aflað sér meiri þekkinar og víðara tengslanets en sjálf ríkisstjórnin. „Píanókennari úti í bæ gat náð sér í sérþekkingu sem jafnaðist á við upplýsingar þingheims og embættismanna. Mér finnst þetta spennandi tilhugsun sem styrkir tiltrú mína á aukið lýðræði. Með auknu lýðræði og þátttöku almennings í að taka ákvarðanir. Lýðræði er lifandi ferli og aukið aðgengi að upplýsingum hlýtur að kalla á þróun og það gerðist með stjórnarskránni.“
Hann svarar því hins vegar hvorki afdráttarlaust játandi né neitandi þegar hann er spurður um hvort að hann hugsi um að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands.
Andri Snær tiltekur þó að honum finnist að þjóðin standi á ögurstundu hvað varðar hálendi Íslands og segir að sér finnist náttúra landsins ekki eiga sér málsvara hjá íslenskum stjórnvöldum. „Svo er heimurinn allur að breytast og ég hef sett mig vel inn í þau mál. Ég er reyndar í miðju verkefni hvað varðar bráðnun jökla og hnattrænar breytingar og hef rætt við marga helstu sérfræðinga heims á því sviði. Þar naut ég góðs af fólki sem Ólafur Ragnar bauð til landsins[...] Mér finnst að forsetinn þurfi að vera mjög jákvæður gagnvart Evrópu. Ekki endilega hvað varðar að ganga í Evrópusambandið. Það eru leiðindaraddir komnar upp í allri Evrópu sem minna of mikið á það fólk sem kveikti í álfunni tvisvar á tuttugustu öld. Við getum ekki flúið þennan veruleika sem flóttamannastraumurinn er en það er hægt að leysa hann. Hvenær hefur Evrópa verið betri en hún er núna? Ekki 1940. Ekki 1980. Hún hefur aldrei verið betri,“ segir hann og leiðir hugann að stríðsárunum, kreppunni og þegar austurblokkin var í járnum. „Það er ekki sjálfsagt að það sé ekki stríð í Evrópu og Ísland á að styðja álfuna og tala hana upp, en ekki niður.“
Höfum of veika framtíðarsýn
Í viðtalinu segist Andri Snær vilja aðra framtíðarsýn. „Menn geta spurt af hverju menn eru ekki bara kátir? Er ekki excelskjalið að lagast? Er ekki allt komið í fullan gang? En ég held að ósamstaðan liggi í stórum málum þar sem markmiðið virðist vera að sigra en ekki að ná sáttum eða sameiginlegri niðurstöðu. Þetta virðist vera ósiður inni á þingi en síðan er þessu varpað út í samfélagið – þar sem frjáls félagasamtök og grasrótarhópar eru meðhöndlaðir eins og hver önnur stjórnarandstaða sem ber að sigrast á. Auðvitað er niðurstaðan neikvæð fyrir samfélagið. Þegar alræði meirihlutans kemur saman við flokksræði – þá er niðurstaðan hreint einræði. Almenningur býr í fjölbreyttu samfélagi og á vini, ættingja og vinnufélaga með margvíslegar skoðanir, en þegar menn setja hlemminn á hálft samfélagið þá hlýtur að sjóða upp úr. Dæmin eru ótal mörg þar sem umdeildum málum er meðvitað haldið utan kosningabaráttunnar en fylgi keypt með rándýrum loforðum.
Við höfum allt of veika framtíðarsýn, það er einhver tilfinning fyrir því að við séum að bítast um sömu bitana, að samfélagið sé á ystu nöf.“
Gus Gus semur ekki Rick Ashley lag
Andri Snær tjáir sig einnig um ósk Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra um að byggja nýja byggingu fyrir Alþingi í gömlum stíl Guðjóns Samúelssonar. Hann segist sammála Sigmundi Davíð um að húsið sé fallegt en að vinnubrögðin sem hann beiti, að það komi skipun að ofan að ríkið eða þjóðin eigi að byggja hús eftir hans eigin höfði eins og um sé að ræða hans persónulega mál, gangi ekki upp. „Skipulagsmál eru víða í ólestri og mistök blasa alls staðar við. En ríkið hefur byggt glæsilegustu hús landsins og sum þeirra eru á viðkvæmum stöðum eins og nýi Hæstiréttur og viðbygging Alþingis sem Batteríið hannaði. Ef við viljum eignast Guðjón Samúelsson í samtímanum verðum við að trúa á fólk og gefa því tækifæri. Við getum ekki sniðgengið heila fagstétt. Hæfir arkitektar hafa hrökklast úr landi vegna verkefnaskorts. Ef maður þekkir arkitektúr almennt eða sögu Guðjóns Samúelssonar frá svona dönskum skólaverkefnum til Hallgrímskirkju og Þjóðleikhúss þá byggjum við ekki Disney-hús þótt það líti vel út á jólakortinu. Þú málar ekki eitthvað sem á að líkjast Kjarval eða biður Gus Gus að semja lag í anda Rick Ashley til að framkalla vellíðunartilfinningu.“
Andri Snær segir að í ósk forsætisráðherra kristallist þau skil sem hafi orðið milli skapandi stétta á Íslandi og þeirra sem virðast ráða. „Menn hafa verið að keyra upp þennan klofning þar sem 101 Reykjavík og landsbyggðin eru settar upp sem andstæður. Hin firrta elíta gegn salti jarðar. Í rauninni eru þetta tveir viðkvæmir hópar sem þurfa á hinum að halda enda verða allar framfarir við blöndun og skörun hugmynda. Frábært dæmi er verkefni Listaháskólans, stefnumót hönnuða og bænda. Úthverfakrakkar sem vissu ekkert um búskap unnu með völdum bæjum og útkoman var mjög spennandi.“