Íslendingar þurfa nú að framvísa ferðaskilríkjum við landamæri Svíþjóðar og Danmerkur í fyrsta sinn frá árinu 1957, eða í tæpa sex áratugi. Þá tók samningur sem leysti ríkisborgara annarra Norðurlanda undan skyldu til að hafa í höndum vegabréf og dvalarleyfi við dvöl í öðru norrænu landi en heimalandinu gildi. Nýjar reglur um hert landamæraeftirlit á landamærum ríkjanna tveggja tóku gildi í nótt.
Ísland varð fullur aðili að Norræna vegabréfasambandinu árið 1966. Ísland undirritaði svo Schengen-samkomulagið í desember 1996 ásamt hinum Norðurlöndunum og það tók gildi hjá þeim öllum 25. mars 2001. Stór ástæða fyrir því að Noregur og Ísland, sem eru ekki í Evrópusambandinu, ákváðu að taka þátt í Schengen var til að varðveita norræna vegabréfasamstarfið.
Í reglugerð um íslensk vegabréf, frá árinu 2009, segir „Íslenskum ríkisborgurum er[...]heimilt að fara beint til og koma beint frá Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð án þess að hafa í höndum vegabréf eða annað ferðaskilríki, sbr. norræna vegabréfaeftirlitssamninginn frá 12. júlí 1957 um afnám vegabréfaskoðunar við landamæri milli Norðurlandanna."
Utanríkisráðuneytið birti í
dag frétt á heimasíðu sinni þar sem sagt var frá að nýjar reglur um
vegabréfaeftirlit hafi tekið gildi á miðnætti í nótt. Nú þurfa íslenskir
ríkisborgarar að hafa með sér skilríki ef þeir ætla að ferðast til landanna
tveggja. Mælt er með því að ferðalangar hafi með sér vegabréf, sem séu
ákjósanlegustu skilríkin, en þó geta Íslendingar einnig framvísað ökuskirteini
eða gild nafnskirteini. Aðrar þjóðir innan Evrópusamstarfsins en hinar norræna
þurfa þó að framvísa vegabréfi eða sambærilegum nafnskirteinum gefin út af þar
til bærum opinberum aðilum. Börn eru ekki undanþegin því að sýna skilríki við
landamæri Svíþjóðar og Danmerkur.
Eftirlitstöðvar við landamæri landanna tveggja voru teknar í notkun í nótt sem leið. Þær fyrstu sem risu – alls 34 talsins - voru á lestarstöðinni við Kastrup-flugvöll, sem er síðasta lestarstöð landsins áður en farið er yfir Eyrarsundsbrúna. Árum saman hefur verið hægt að keyra beint yfir brúna en nú þurfa farþegar að skipta um lest og fara í gegnum eftirlitshliðin á brautarpallinum áður en þeir geta haldið för sinni áfram. Landamæragæslan verður í höndum einkaaðila, öryggisfyrirtækisins Securitas, og er búist við því að um 150 starfsmenn þess muni sinna því allan sólarhringinn.
Danir hafa auk þess hert landamæraeftirlit milli Þýskalands og Danmerkur næstu tíu daga. Áður höfðu Norðmenn og Finnar, auk Svía, hert eftirlit sitt.