Hlutabréf hrundu í verð í Kína í dag, eða um sjö prósent, eftir að nýjar hagtölur voru gerðar opinberar sem þóttu sýna hægagang í Kína, miðað við væntingar. Sérstaklega eru það hagtölur úr byggingariðnaði og framleiðslu, sem ekki stóðu undir væntingum, samkvæmt umfjöllun Wall Street Journal.
Þessi tíðindi frá Kína eru sögð hafa hrint af stað mikilli lækkunarhrinu á mörkuðum í dag, en hin útflutningsdrifna DAX 40 vísitala í Þýskalandi lækkaði um 3,8 prósent við opnun, en þegar líða tók á daginn lækkaði verðið um 4,44 prósent.
Það sama hefur verið uppi á teningnum á öðrum mörkuðum, þar sem miklar lækkanir hafa sést. Þannig hefur Nasdaq vísitalan í Bandaríkjunum lækkað um 2,72 prósent, og S&P 500 vísitalan um 2,5 prósent.
Í viðtali við Wall Street Journal segir Rob Bernstone, framkvæmdastjóri hjá Credit Suisse bankanum í New York, að svo virðist sem þessi mikla neikvæðni á mörkuðum hafi komið flestum í opna skjöldu. „Hvað sem þar var, sem miðlarar voru að gera núna, í upphafi 2016, þá virðast þau veðmál hafa farið út úm þúfur,“ sagði Bernstone.
Eins og greint hefur verið frá í fréttaskýringum á vef Kjarnans á undanförnum mánuðum, þá hafa verið að byggjast upp miklar áhyggjur af gangi mála í Kína, hjá fjárfestum í Bandaríkjunum. Þeir treysta illa hagtölum í Kína, og telja að staðan í kínverska hagkerfinu sé verri en stjörnvöld þar í landi vilja viðurkenna, að því er fram hefur komið í könnunum sem Wall Street Journal hefur gert meðal hagfræðinga og fjárfesta.
Þrátt fyrir að staðan í Kína, sem er annað stærsta hagkerfi heimsins á eftir Bandaríkjunum, sé slæm, þá gerir hagvaxtarspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ráð fyrir því að hagvöxtur í fyrra, hafi verið á milli sex og sjö prósent.
Undanfarin tæplega tuttugu ár hefur hagvöxtur verið á bilinu sjö til 10 prósent á ári að meðaltali í Kína, og hagkerfið þannig umbylst. Þetta fjölmennasta ríki heims, með um 1,4 milljarða íbúafjölda, hefur auk þess opnast verulega frá því sem áður var, fyrir erlendri fjárfestingu.