Maury Obstfeld, aðalhagfræðingur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS), segir að fjárfestar og stjórnvöld ríkja, ekki síst í Bandaríkjunum og Evrópu, þurfi að vera á verði vegna stöðu mála í Kína og nýmarkaðsríkjum. Nýjar hagtölur frá Kína sýna að meiri hægagangur er í hagkerfinu þar, en margir höfðu gert ráð fyrir, og féll verð á hlutabréfum um þrjú til fimm prósent, að meðaltali í gær, af þeim ástæðum ekki síst, að því er fram kom í umfjöllun Wall Street Journal, og fjallað var um á vef Kjarnans í gær.
Þetta var fyrsti stóri viðskiptadagur ársins á verðbréfamörkuðum en mesta lækkunin var á kínversu Shanghai vísitölunni, en hún lækkaði um sjö prósent, sem telst mikið á einum degi. Lækkanir héldu áfram í dag, og lækkaði verð á hlutabréfum að meðaltali á öllum helstu mörkuðum Asíu um eitt prósent.
Obstfeld segir, í nýrri bloggfærslu á vef Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að staða efnahagsmála í Kína og nýmarkaðsríkjum, ekki síst þeim sem eigi mikið undir olíuiðnaði og útflutningi til Kína, sé afar viðkvæm um þessar mundir, þar sem niðursveifla á hrávörumörkuðum, ekki síst vegna lækkandi olíuverðs og minnkandi eftirspurnar, bitni harkalega á þeim. Ekki sjáist enn til botns í þessum efnum. Dæmi um ríki sem glíma við mikil vandamál í augnablikinu er Brasilía, stærsta land Suður-Ameríku með 200 milljónir íbúa.
Í Kína sé einnig hættulegt ef stjórnvöld ákveða að einblína á að setja meiri opinbera fjármuni út á markað, með lánum og fjárinnspýtingum, í stað þess að byggja upp heilbrigðan vöxt. Erfitt sé að greina hvar jafnvægið sé á markaðnum, þegar þetta er gert í miklu mæli, og í versta falli geta það aukið á vandann til lengri tíma.
Þá muni árið 2016 einkennast af því, að byggja upp sjálfbæran hagvöxt, ekki síst í þróuðum ríkjum, þar sem tími örvunaraðgerðar stjórnvalda muni brátt líða undir lok.