Jón Gnarr, framkvæmdastjóri dagskrársviðs 365, segist ekki vita hversu mikið fagnaðarefni það sé fyrir neytendur að nú sé hægt að kaupa aðgang að Netflix með löglegum hætti á Íslandi. „Ef fyrirtæki eins og 365 og fleiri hætta að sjá sér fær að standa í því að framleiða íslenskt sjónvarpsefni þá er það hreint ekkert sérstakt fagnaðarefni. Það er bara synd,“ segir Jón í stöðuuppfærslu á Facebook sem hann setti inn fyrr í dag. 365 er stærsta einkarekna fjölmiðlafyrirtæki landsins og rekur fjölmargar sjónvarpsstöðvar sem seldar eru í áskrift.
Forsvarsmenn Netflix tilkynntu í gær að opnað hafi verið fyrir þjónustuna í 130 löndum til viðbótar við það sem var og er Ísland á meðal þeirra.
Samkvæmt vefsíðu Netflix munu áskriftarleiðirnar kosta frá átta evrum mánarlega til tólf evra, eftir því hvaða þjónustuleið er valin. Þetta gera á bilinu 1.000 til 1.700 íslenskar krónur. Nú þegar er talið að um 27 þúsund íslensk heimili séu þegar með Netflix aðgang, sem aflað hefur verið með krókaleiðum.
Jón deilir Pælingu dagsins hjá Kjarnanum, þar sem sagt var að innkoma Netflix væri fagnaðarefni fyrir neytendur, og segist ekki vita alveg hversu mikið „fagnaðarefni“ þessi breyting sé. „Ég er að vinna hjá einum af þessum fyrirtækjum sem minnst er á í greininni. Þar á bæ er verið að búa til aragrúa af íslensku sjónvarpsefni. Og eins og ég hef margoft sagt þá er ég að því af því að mig langar til að leggja mitt af mörkum til að efla og styrkja innlenda framleiðslu og dagskrá. Við höfum sett á fót sérstaka handritsþróunardeild sem á að einbeita sér að þessu.“
Jóla- og áramótaþáttur af Næturvaktinni í bígerð
Jón segir að hann hafi
nýlokið við að skrifa tíu þátta sjónvarpsseríu sem heitir Borgarstjórinn. Auk
þess sé 365 að vinna að metnaðarfullri leikinni þáttaröð í samstarfi við Rvk
Studios, framleiðslufyrirtæki Baltasar Kormáks. Þá segist Jón vera að skoða
möguleikann á því að gera sérstakan jóla- og áramótaþátt af hinum vinsælu
þáttum Næturvaktinni, þar sem Jón fór með hlutverk Georgs Bjarnfreðarsonar. „Það er nokkuð flókið að gera íslenska sjónvarpsþætti.
Sérstaklega með tilliti til fjármögnunar. Kvikmyndasjóður Íslands leggur enga
sérstaklega áherslu á sjónvarp. Þeir styrkja aðallega kvikmyndir og sjónvarp
mætir eiginlega afgangi.
Ég tel að framlag mitt til innlendrar
sjónvarpsþáttagerðar hafi skipt miklu máli, ekki bara sem afþreyging heldur
fyrst og fremst sem framlag til íslenskrar tungu og menningar og sem heimild um
okkar samtíma. Mig langar að finna leiðir til að halda því áfram, að búa til
sjónvarp fyrir Íslendinga á íslensku. Og mér finnst það sérstaklega mikilvægt í
ljósi þess hvernig sjónvarp er að breytast í heiminum. Ef fyrirtæki eins og 365
og fleiri hætta að sjá sér fært að standa í því að framleiða íslenskt
sjónvarpsefni þá er það hreint ekkert fagnaðarefni. Það er bara synd.“