Mannkynið hefur haft svo mikil áhrif á jörðina að forsenda er fyrir því að nefna nýtt jarðsögulegt tímabil eftir mannkyninu. Tímaskeið þetta mundi binda enda á Hólósen-tímabilið sem jarðfræðingar kalla venjulega nútímann og mannlífstími mundi hefjast. Hópur vísindamanna hefur lagt þetta til en margra ára rannsóknir þurfa að fara fram áður en hugtakið fær formlega merkingu.
Hólósen-tímabilið hófst fyrir 11.700 árum við enda síðustu ísaldar. Hólósen er merkilegt í jarðsögunni því siðmenning manna hófst á þessu tímabili. Engin önnur dýrategund, sem vitað er um, hefur haft jafn mikil áhrif á umhverfi sitt, náttúru og híbýli en maðurinn. Nýja tímabilið sem lagt hefur verið til að hefjist nú heitir á ensku „Anthropocene“ og er dregið af gríska orðinu „anthropos“ sem þýðir einfaldlega „maður“. Í lauslegri þýðingu mætti kalla þetta nýja jarðsögulega tímabil „mannlífstími“.
„Við erum að verða jarðfræðilegur orsakavaldur í sjálfu sér.“
„Athafnir mannkynsins eru að hafa óafturkræfar og þrálátar breytingar á jörðinni,“ segir í grein eftir alþjóðlegan hóp vísindamanna undir forystu Colin Waters í tímaritinu Science. „Við erum að verða jarðfræðilegur orsakavaldur í sjálfu sér,“ sagði Waters í samtali við Reuters-fréttastofuna.
Lagt er til að upphaf mannlíftímans verði um miðja 20. öldina. Það er merkilegur tímapunktur í sögu mannkyns; lok seinni heimstyrjaldarinnar, gríðarlegar samfélagslegar breytingar og hraðari tæknivæðing en nokkru sinni hefur þekkst einkennir áratugina um miðja síðustu öld. Hópurinn undir stjórn Waters segir upphaf kjarnorkualdarinnar, mikla aukningu í námugreftri eftir stríðið, iðnað, landbúnað og notkun manngerðra efna eins og streypu og plast hverfast um þennan tímapunkt. Því sé lagt til að upphafið verði miðað við miðja 20. öld.
Steypu má finna hvarvetna í heiminum og raunar svo víða að hægt væri að dreifa einu kílói af allri framleiddri streypu á hvern fermetra yfirborðs jarðar. Rómverjar fundu upp steypuna til byggingar mannvirkja, löngu fyrir Kristsburð. Nú er þessi blanda vatns og steinefna meginuppistaða í byggingagerð mannsins.
Margra ára rannsóknir þurfa að fara fram áður en hugtakið „mannlífstími“ verður formlega notað yfir nýtt jarðsögulegt tímabil. Waters segir þessar rannsóknir þurfa að snúast að hluta til um hvenær upphafspunkturinn verði settur. Aðrir vísindamenn hafa lagt til árið 1610 sem upphaf mannlífstíma, og miða það við útbreiðslu nýlendustefnu, sjúkdóma og verslunar um allan heim.
Í samtali við Reuters segir Erle Ellis, vísindamaður við Maryland-háskóla í Bandaríkjunum, að verði mannlífstími formlega viðurkenndur af vísindasamfélaginu muni það hafa mikil áhrif á það hvernig mannkynið skilur veru sína á jörðinni. Ellis er í hópi vísindamannanna sem rituðu greinina í Science. Hann vill meina að hér sé um jafn veigamikla hugarfarsbreytingu að ræða og þegar pólski stærðfræðingurinn Kóperníkus lagði til að og sýndi fram á að jörðin snérist í kringum sólina, en ekki öfugt á 16. öld.