Sem fyrr var ýmislegt forvitnilegt að finna á Kjarnanum um helgina.
Kjarninn spurði alla þingmenn um það hvort þeir væru í námi meðfram þingstörfum og hvort þeim þyki eðlilegt að stunda slíkt nám. Þrír þingmenn eru í námi, tveir hafa lokið námi meðfram þingstörfum og skoðanir þeirra eru verulega skiptar um málið.
Saga forsetakosninga á Íslandi er skrautleg þrátt fyrir að kosningar hafi verið fátíðar á lýðveldistímanum. Sagnfræðingurinn Kristinn Haukur Guðnason skrifaði um söguna í bráðskemmtilegri fréttaskýringu á laugardag.
Agnar Freyr Helgason, doktor í stjórnmálafræði, skrifaði einnig grein um það hvernig staðið er að forsetakosningum í öðrum ríkjum en á Íslandi. Aðferðin sem við notum er á hröðu undanhaldi, og það er góð ástæða fyrir því.
Borgþór Arngrímsson, fréttaritari Kjarnans í Kaupmannahöfn, skrifaði um flóttamannamálin í Danmörku, en nú standa öll spjót á dönsku ríkisstjórninni. Flóttamannastofnun SÞ hefur harðlega gagnrýnt ráðherra fyrir yfirlýsingar um að flóttafólk þurfi að afhenda verðmæti við komuna til Danmerkur og landamæraeftirlit hefur vakið ýmis vandamál.
Frétt sem vakti mikla athygli um helgina var um það að MS selur um eina og hálfa milljón ferna af G-mjólk á ári, og allar eru þær með röri sem fæstir nota. Framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs fyrirtækisins segir að umbúðirnar séu mjög óhentugar fyrir neytendur. „Við höfum bara aldrei fengið svona ábendingu áður,“ sagði hann við Kjarnann, og jafnframt að málið yrði skoðað.
Og hlaðvörp Kjarnans voru á sínum stað, Tæknivarpið fjallaði um Netflix, sem er loksins löglega komið til Íslands, og Freyr Eyjólfsson setti Zinedine Zidane, skærustu fótboltastjörnu Frakka frá upphafi, undir smásjána.