LEGO-kubba má nú nota í pólitískum tilgangi því danska fyrirtækið hefur breytt skilmálum sínum í kjölfar ónægjuöldu í garð fyrirtækisins eftir að það hafnaði kínverskum listamanni um kubba sem hann ætlaði að nota til að undirstrika mannréttindi.
Kínverski mannréttindafrömuðurinn og listamaðurinn Ai Weiwei ætlaði að nota LEGO-kubba til að búa til listaverk um tjáningarfrelsi sem stilla átti upp í listasafni í Ástralíu. Hann pantaði því töluvert magn af kubbum frá LEGO. Það hefur verið vinnuregla hjá LEGO að krefjast skýringa fyrir öllum stórum pöntunum á kubbum og þegar skýringin fyrir pöntun Ai barst var sendingin á tveimur milljónum leikfangakubba stöðvuð.
Frá þessu er meðal annars greint á vef Quartz. Ai kallaði þetta mismunun og ritskoðun. Í kjölfarið bárust honum gríðarmargar sendingar af kubbum frá fólki hvaðanæva að úr heiminum. Ai Weiwei er í hópi þekktustu núlifandi myndlistarmanna heims. Á lista breska tímaritsins Artreview yfir hundrað áhrifamestu persónur samtímans í myndlistarheiminum skipar Ai Weiwei annað sætið. Til gamans má geta að hann hefur meðal annars unnið með Ólafi Elíassyni.
Borgþór Arngrímsson vann umfjöllun um málið í Kjarnanum þegar það kom upp í vetur. Þar segir að LEGO hafi ekki getað styrkt verkefni sem bæru pólitískt yfirbragð. Þó bent hafi verið á að verið væri að kaupa kubba en ekki að biðja um þá gefins endurtók LEGO sömu svör en sagði jafnframt að hver sem er geti keypt kubba og gert við þá hvað sem viðkomandi sýnist.
Þegar blaðamaður Politikens sendi tölvupóst til LEGO og spurði hvort hann gæti keypt milljón LEGO-kubba, í ýmsum litum, var spurt hvað hann hygðist gera við þá. „Kemur LEGO það eitthvað við?“ spurði blaðamaður en fékk engin svör. Blaðamaðurinn hafði líka samband við danskar leikfangaverslanir og spurðist fyrir um kaup á milljón kubbum. Verslanirnar vísuðu á LEGO því þær seldu ekki kubba í lausu í milljónatali.
Danskir fjölmiðlar og fjölmargir aðrir töldu að ástæða þessa væri að LEGO væri einfaldlega hrætt um að styggja kínverska ráðamenn. Forsvarsmönnum LEGO hafi verið sagt að það mundi bitna harkalega á LEGO að selja þessum pólitíska andófsmanni kubba. LEGO er að undirbúa opnun Legolands í Sjanghaí og hefur þegar opnað stóra kaupaverksmiðju í Jiaxing.
Um áramótin breytti LEGO skilmálum sínum. Fyrirtækið mun ekki spurja í framtíðinni til hvers stórar pantanir verða notaðar eins og það hefur gert. „Þetta hefur verið gert vegna þess að tilgangur LEGO Group er að veita börnum innblástur með skapandi leikföngum, ekki að styðja ákveðnar skoðanir einstaklinga eða stofnanna,“ segir í tilkynningu sem birtist á vef LEGO í gær.