Litlar breytingar urðu á lestri prentmiðla landsins í desember síðastliðnum, sem er stærsti mánuður ársins í auglýsingasölu fjölmiðla. Sögulega hefur lestur blaða oft hækkað í þessum mánuði. Lestur á DV og Viðskiptablaðinu stóð algjörlega í stað og lestur á Morgunblaðinu fór upp um 0,2 prósentustig. Lestur Fréttatímans dróst saman um 0,9 prósentustig og Fréttablaðsins um 0,3 prósentustig. Allar breytingarnar eru innan skekkjumarka. Þetta kemur fram í nýrri prentmiðlakönnun Gallup sem birt var á föstudag.
Fréttablaðið er sem fyrr mest lesni prentmiðill landsins, en 49,6 prósent landsmanna á aldrinum 12-80 ára segjast lesa hann. Blaðið fór í fyrsta sinn undir 50 prósent lestur í november 2015 frá árinu 2002. Þá kom blaðið inn á 76 þúsund heimili í landinu. Síðan þá hefur dreifing Fréttablaðsins verið aukin og því er nú dreift frítt í 90 þúsund eintökum inn á heimili landsins sex daga vikunnar. Blaðið fór í gegnum mestu útlitsbreytingar sem blaðið hefur ráðist í í sögu sinni í ágústmánuði en hefur haldið áfram að tapa lestri síðan þá.
Lestur blaðsins hefur dalað mest hjá fólki undir fimmtugu. Sumarið 2008 lásu 66 prósent Íslendinga á aldrinum 18-49 ára Fréttablaðið. Í desember 2015 lásu rúmlega 43 prósent landsmanna í þeim aldursflokki það. Þeim fækkaði um 1,6 prósentustig í jólamánuðinum.
DV heldur þeirri viðspyrnu sem blaðið hefur náð í lestri á undanförnum mánuðum, en blaðið náði sögulegum botni í lestri í ágúst síðastliðnum þegar 7,13 prósent þjóðarinnar lásu það. Lestur blaðsins hafði aldrei verið jafn lítill og þá í 40 ára sögu DV. Nú lesa 9,5 prósent landsmanna blaðið. Athygli vekur hversu mörgum lesendum undir fimmtugu DV hefur bætt við sig á undanförnum mánuðum. Í október lásu einungis 5,1 prósent landsmanna í þeim aldurshópi blaðið en tveimur mánuðum síðar var sá lestur komin upp í 8,4 prósent. Það er aukning um 65 prósent á nokkrum vikum.
Viðskiptablaðið, sem er selt í áskrift og kemur út einu sinni í viku, hefur aukið töluvert við lestur sinn það sem af er þessu ári og í nóvember mældist lestur á blaðinu 13,4 prósent. Það er mesti lestur sem það hefur verið með frá því að það kom aftur inn í mælingar Gallup í júní 2011. Blaðið heldur þeim metlesti í desembermánuði.
Lestur Morgunblaðsins mælist nú 28,6 prósent, sem er mjög nálægt minnsta lestri sem blaðið hefur nokkru sinni mælst með. Morgunblaðið hefur misst um 35 prósent lesenda sinna á undanförnum sex árum. Samdrátturinn hefur verið sérstaklega mikill hjá Íslendingum undir 50 ára, en nú lesa 19,4 prósent landsmanna í þeirra blaðið. Morgunblaðið hefur verið mun oftar í frídreifingu á undanförnum árum, sérstaklega á fimmtudögum, en það var áður.
Fréttatíminn, sem fékk nýja eigendur í lok síðasta árs, tapar mestu allra í lestri á milli mánaða. Nú lesa 36,9 prósent landsmanna blaðið. Það tapar töluverðu af lesendum undir fimmtugu á milli mánaða en 29,4 prósent landsmanna milli 18-49 ára les blaðið. Þegar hafa orðið nokkrar breytingar á blaðinu það sem af er þessu ári, meðal annars útlitslegar. Gunnar Smári Egilsson og Þóra Tómasdóttir hafa tekið við ritstjórn blaðsins og Þóra Kristín Ásgeirsdóttir hefur verið ráðin fréttastjóri blaðsins.