Nýr kafli er hafinn í samskiptum Írans við heiminn eftir að alþjóðlegum viðskiptaþvingunum á ríkið hefur verið lyft. Þetta segir Hassan Rouhani forseti landsins.
Viðskiptaþvinganir Sameinuðu þjóðanna, Bandaríkjanna og Evrópusambandsins hafa haft mikil áhrif á efnahag Írans. Hluti af kjarnorkusamkomulaginu sem náðist við Íran á síðasta ári fól það í sér að viðskiptaþvingunum yrði létt ef ákveðnum skilyrðum væri mætt. Í gær var tilkynnt um það að Íranir hefðu uppfyllt þau skilyrði, og því yrði hafist handa við að aflétta þvingunum. Þessu hefur verið fagnað víða síðan þá. Talað er um daginn sem innleiðingardaginn, eða Implementation Day á ensku.
Bandaríkin og Íran hafa skipst á föngum sem hafa verið í haldi í hvoru landi um sig. Íranir slepptu úr haldi fimm föngum, meðal annars Jason Rezaian, blaðamanni Washington Post, sem hefur verið í haldi grunaður um njósnir í meira en ár. Allir fangarnir eru með tvöfaldan ríkisborgararétt í Bandaríkjunum og Íran. Þeim var sleppt í skiptum fyrir sjö Írani sem hafa verið í haldi bandarískra yfirvalda fyrir brot á viðskiptaþvingununum.
Rouhani vill að almenningur í landinu finni fyrir áhrifum breytinganna áður en þingkosningar verða haldnar í Íran í febrúar. Fljótlega munu bankar í Íran opna á samskipti sín við evrópska fjármálakerfið. 30 milljarðar Bandaríkjadala, sem hafa verið frosnir undanfarin ár, verða strax aðgengilegir Írönum, en alls hafa 100 milljarðar dala verið frosnir.
Nú verður ekki lengur bannað að flytja íranska olíu til Evrópusambandsríkja, og það mun hafa áhrif á alþjóðlega olíumarkaðinn. Stjórnvöld í Íran munu líklega bæta hálfri milljón hráolíutunna á markaðinn á dag - sem mun að öllum líkindum lækka olíuverðið enn frekar. Búist er við því að hálfri milljón tunna til viðbótar verði bætt við eftir einhvern tíma. Nú þegar flytja Íranir út um 1,1 milljón tunna á dag.
Enn fremur hefur Barack Obama Bandaríkjaforseti lyft banni við sölu á flugvélum til Írans. BBC greinir frá því að Íranir vilji kaupa 114 nýjar farþegaflugvélar frá Airbus.