Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur ekki tekið ákvörðun hvort hún ætli að ráða sér nýjan aðstoðarmann. Hún er nú eini ráðherra ríkisstjórnarinnar sem er án aðstoðarmanns eftir að Matthías Imsland, fyrrverandi aðstoðarmaður hennar, var ráðinn sem aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra á mánudag. Hann hafði verið Eygló til aðstoðar frá því í ágúst 2013.
„Ég er bara að velta þessu fyrir mér," segir Eygló í samtali við Kjarnann. „Það er mikið af góðu fólki í ráðuneytinu mér til aðstoðar og svo er mjög gott og mikið samstarf á milli ráðherra í ríkisstjórninni.”
Hún bendir á að mikil rótering hafi verið meðal aðstoðarmanna ráðherra Framsóknar á kjörtímabilinu.
Ágúst Bjarni Garðarsson hafði til að mynda unnið bæði fyrir Eygló og Gunnar Braga Sveinsson utanríkisherra áður en hann var ráðinn aðstoðarmaður Sigurðar Inga Jóhanssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Margrét Gísladóttir var aðstoðarmaður Gunnars Braga en fór síðan til Sigmundar Davíðs og Ingveldur Sæmundsdóttir starfaði sem aðstoðarmaður Sigurðar Inga en fór yfir til Sigrúnar Magnúsdóttur umhverfisráðherra þegar hún tók við embætti.
Stór mál eru framundan hjá Eygló á þinginu, en húsnæðisfrumvörp hennar eru nú til umræðu í þingnefnd og verða tekin fyrir á næstu vikum. Eygló segir Matthías hafa verið að sinna ákveðnum verkefnum fyrir forsætisráðuneytið á meðan hann var hennar aðstoðarmaður, meðal annars varðandi húsnæðismálin. En áfram sé mikið af góðu fólki í ráðuneytinu henni til aðstoðar.
„Í stóru ráðuneyti gerir aldrei neinn eitthvað einn. Ég ætla að sjá til og meta vel hvort ég þurfi á aðstoðarmanni að halda áður en ég tek ákvörðun,“ segir hún.
Alls starfa 14 formlegir aðstoðarmenn fyrir hina níu ráðherra ríkisstjórnarinnar.
Bjarni Benediktsson, efnahags- og viðskiptaráðherra, Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, Ólöf Nordal innanríkisráðherra, Sigmundur Davíð og Sigurður Ingi eru öll með tvö aðstoðarmenn hvert.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Gunnar Bragi og Sigrún eru með einn aðstoðarmann hvert.
Allir formenn stjórnarandstöðuflokkanna fjögurra eru líka með einn aðstoðarmann hvert á sínum snærum.