Félag í eigu Ólafs Ólafssonar, aðaleiganda Samskipa, hefur hafið ferli við að byggja hótel á lóð við Suðurlandsbraut 18. Um er að ræða breytingu á byggingu sem fyrir er og viðbyggingu. Eftir stækkun gæti byggingin rúmað vel á annað hundrað hótelherbergi. Frá þessu er grein í Morgunblaðinu í dag.
Ólafur er umsvifamikill athafnamaður. Hann situr sem stendur í fangelsinu á Kvíabryggju þar sem hann afplánar fjögurra og hálfs árs dóm sem hann hlaut í Al Thani-málinu svokallaða í fyrra.
Sama félag og eignaðist Samskip
Í Morgunblaðinu er greint frá því að skipulagsyfirvöld í Reykjavík hafi auglýst nýtt deiliskipulag lóðarinnar á Suðurlandsbraut 18 þar sem ofangreind breyting kemur fram.
Fjárhagsstaðan ágætt
Ólafur hefur haldið því fram að hann hafi verið dæmdur í fangelsi á grundvelli misskilnings og hefur auk þess dregið í efa hæfi tveggja dómara Hæstaréttar sem felldu hinn þunga dóm yfir honum. Því hefur hann óskað eftir endurupptöku málsins fyrir endurupptökunefnd og kært það til Mannréttindadómstóls Evrópu. Í viðtali við Viðskiptablaðið í október sagði hann það ömurlegt hlutskipti að sitja í fangelsi. Fjárhagsstaða hans væri hins vegar ágæt og óttist ekki að missa þau fyrirtæki sem hann á, meðal annars Samskip.
Í viðtali við Ísland í dag fyrr í þessum mánuði sagði Ólafur að hann geti stundað sína vinnu frá Kvíabryggju. Hann hafi aðgengi að tölvupóstum, síma og interneti sem geri honum kleift að sinna sínum eignum.