Hópur manna tengdur Framsóknarflokknum vinnur nú að því að kanna grundvöll fyrir forsetaframboði Guðna Ágústssonar. Hópurinn hefur verið í sambandi við „vel tengda" einstaklinga víða um landið til að kanna áhuga kjördæma á Guðna. Forsprakki hópsins, Gestur Valgarðsson, segir Guðna vita af vinnunni. Frá þessu er greint í DV í dag.
Gestur er verkfræðingur og fyrrverandi formaður Framsóknarfélags Kópavogs. Hann segir að hópnum finnist Guðni „góður fulltrúi hins venjulega Íslendings. Hann er frekar málamiðlari í eðli sínu en hitt. Við munum að umræðurnar fyrir síðustu kosningar voru á þá leið að þær snerust að mestu um „öryggisventilinn“ og á hvaða þrýstingi tiltekinn frambjóðandi myndi blása. Okkur finnst að forsetinn eigi að vera málamiðlari frekar en að taka yfir þessa pólitísku umræðu í landinu. En svo er Guðni auðvitað vel þekktur og vel máli farinn að okkar mati.“
Guðni er staddur á Kanarí í fríi og kvaðst ekkert kannast við málið þegar DV spurði hann um það. Hann ætli að einbeita sér að því að spila mínigólf áfram.
Guðni er fyrrum formaður Framsóknarflokksins og var þingmaður og ráðherra árum saman. Hann var einnig einn helsti stuðningsmaður Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands. Guðni var meðal annars einn þeirra sem stóð að því að safna undirskriftum þar sem skorað var á Ólaf Ragnar að endurskoða ákvörðun sína um að hætta árið 2012. Það gerði hann í kjölfarið.