Minnst 10 þúsund flóttabörn hafa horfið eftir að hafa komið til Evrópu að sögn evrópsku lögreglunnar Europol. Mörg eru talin vera fórnarlömb mansals, enda séu skipulögð glæpasamtök að herja á flóttamenn.
Brian Donald, yfirmaður hjá Europol, segir að fimm þúsund börn hafi horfið á Ítalíu og þúsund séu týnd í Svíþjóð. „Það er ekki fjarri lagi að segja að við séum að leita að yfir tíu þúsund börnum. Þau eru ekki öll fórnarlömb glæpa, sum gætu verið komin til fjölskyldumeðlima. Við vitum bara ekki hvar þau eru, hvað þau eru að gera eða með hverjum þau eru,“ segir hann við The Observer í Bretlandi.
Flóttabörn sem koma til Evrópu án forráðamanna eru eitt stærsta vandamálið sem tengist flóttamannakrísunni. Þau eru viðkvæmasti hópur þeirra sem koma til Evrópu. Donald segir að flóttabörn sem komið hafi til Evrópu undanfarið telji 270 þúsund. Þau séu ekki öll skráð inn í álfuna, og ekki séu öll án fylgdar, en mikill hluti þeirra sé það samt líklega. Því sé varlega áætlað að segja 10 þúsund börn séu týnd.
Greint var frá því á föstudagskvöld að um 100 grímuklæddir menn hafi komið saman í miðborg Stokkhólms, ráðist á fólk sem leit út fyrir að vera af erlendum uppruna og hvöttu til árása á börn sem komið hafa til Svíþjóðar sem flóttamenn. Einnig fundust bæklingar þar sem hvatt var til þess að fólk réðist á börn sem eru á flótta án fylgdar.
Þarf milljarða til að koma flóttabörnum í skóla
Í breska fjölmiðlinum Guardian hefur sjónum þó einnig verið beint að þeim börnum sem eru á flótta utan Evrópu. Í dag birtist grein eftir friðarverðlaunahafann Malölu Yousafzai og sýrlensku flóttakonuna Muzoon Almellehan. Þar hvetja þær til þess að ríkar þjóðir heims verji 1,4 milljörðum punda til þess að tryggja að flóttabörn komist í skóla. Þær hittust fyrst í flóttamannabúðum í Jórdaníu, þar sem sýrlenskar stúlkur niður í 12 ára eru giftar eldri mönnum í þeirri von að það muni bjarga þeim frá fátækt og ofbeldi. Flestar þessar stúlkur fari aldrei aftur í skóla.
Áður en stríðið í Sýrlandi hófst hafi hins vegar öll börn átt kost á 12 ára ókeypis skólagöngu, og læsi var 90%.
„Ríki á landmærunum eins og Jórdanía, Líbanon, Tyrkland, Egyptaland og Írak hafa opnað dyrnar og skólana sína fyrir sýrlenskum börnum, en hafa ekki burði til að hjálpa öllum. Ríkustu lönd heims hvetja flóttamenn til að vera áfram á því svæði í stað þess að koma til Evrópu, á meðan þau veita ekki fjármagnið sem nágrannaríkin þurfa til að takast á við krísuna.“