Kínversk stjórnvöld handtóku í gær og í dag 21 starfsmann fyrirtækisins Ezubao, sem bauð upp á lánaþjónustu á netinu, en slík starfsemi hefur vaxið hratt í Kína á undanförnum misserum.
Samkvæmt fréttum breska ríkisútvarpsins BBC er talið að 900 þúsund einstaklingar hafi verið í viðskiptum við Ezubao, og séu fórnarlömb viðamikils svindls á netinu sem nemur samtals 7,6 milljörðum Bandaríkjadala eða rétt um þúsund milljörðum króna.
Engin fordæmi eru fyrir máli sem þessu í Kína, en stjórnvöldum hefur gengið illa að byggja upp eftirlit með skuggabankastarfsemi, ekki síst á netinu, en heildarumfang þess markaðar nemur um 2.500 milljörðum Bandaríkjadala. Skuggabankastarfsemi er utan hefðbundinna banka sem eru undir ströngu eftirliti yfirvalda.
Stofnandi fyrirtækisins heitir Ding Ning, en það var stofnað árið 2014. Hann er jafnframt stjórnarformaður félags að nafni Yucheng Group. Hann er á meðal hinna handteknu.
Samkvæmt umfjöllun BBC hafa stjórnvöld í Kína sagt, að 95 prósent þeirra tilboða, sem komu í gegnum síðuna, sem síðan var lánað vegna, hafi verið fölsk. Þannig hafi peningar verið fengnir að láni á fölskum forsendum.
Málið er nú í rannsókn, en samkvæmt fréttum BBC, hafa stjórnvöld í Kína sagt að gögn staðfesti umfangsmikla fjársvikastarfsemi.