Leiðtogar víða að úr heiminum koma saman í London á morgun til þess að ræða flóttamannavandann vegna stríðsins í Sýrlandi. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra verður á ráðstefnunni, en hann fer til London frá Líbanon, þar sem hann hefur undanfarna daga kynnt sér aðstæður flóttamanna.
Markmiðið með ráðstefnunni á morgun er að safna níu milljörðum Bandaríkjadala fyrir sýrlenska flóttamenn og koma í veg fyrir að stétt ómenntaðra, atvinnulausra og rótlausra Sýrlendinga festist í sessi í ríkjunum sem eiga landamæri að Sýrlandi. 4,6 milljónir Sýrlendinga hafa flúið til nágrannaríkjanna. Skipuleggjendur ráðstefnunnar vilja að meginþungi hjálparaðstoðar í þessum löndum færist frá matargjöfum og til þess að skapa vinnu- og menntunartækifæri fyrir Sýrlendinga í Líbanon, Tyrklandi og Jórdaníu.
Leiðtogar Bretlands, Þýskalands, Noregs og Kúvæt standa fyrir fundinum á morgun. Guardian greinir frá því í dag að bresk stjórnvöld hafi áttað sig á því að aukin hætta sé á því að flóttamenn gangi til liðs við öfgahópa eða gefist upp á biðinni og hefji langa ferð til Evrópu ef þeim er ekki boðið upp á betra líf bæði innan og utan flóttamannabúða. Þá hafi skilningur einnig aukist á því að ríkin í nágrenni Sýrlands geti ekki borið allar byrðarnar ein án miklu meiri hjálpar.
Forsvarsmenn ráðstefnunnar vilja að markmið þessa árs verði að koma einni milljón Sýrlendinga í skóla og tugþúsundum í vinnu með því að veita atvinnuleyfi. Ríkin í kringum Sýrland hafa upplifað miklar breytingar á vinnumarkaði með innkomu flóttamanna og hafa verið treg til að veita atvinnuleyfi.
UNICEF, barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hefur sagt að 1,4 milljarð Bandaríkjadala þurfi til þess að hjálpa börnum í Sýrlandi og sýrlenskum börnum annars staðar.
Flóttamannaráð Noregs hefur gefið út ýmsar tölur í tilefni af ráðstefnunni á morgun. Meðal annars kemur þar fram að 700 þúsund Sýrlendingar séu ólöglegir í Líbanon, sem geri þeim erfitt fyrir að komast í skóla eða fá atvinnuleyfi. 250 þúsund manns eru talin óskráð í Jórdaníu, og 70% sýrlenskra flóttamanna í þessum tveimur ríkjum búa við mikla fátækt. 200 þúsund skólabörn í Líbanon ganga ekki í skóla, og í Jórdaníu eru fjögur af hverjum tíu flóttabörnum ekki í skóla.