Ungir jafnaðarmenn, ungliðahreyfing Samfylkingarinnar, vill að formannskjör í Samfylkingunni fari fram í vor, og ekki síðar en í maí. Hreyfingin segir að horfast verði í augu við að „skilaboð Samfylkingarinnar eru ekki að ná eyrum kjósenda og leita þarf allra leiða til að byggja upp trúverðugleika flokksins á ný. Mikilvægt er því á þessum tímapunkti að skerpa á skilaboðum flokksins og veita forystu skýrt umboð til að leiða flokkinn áfram í baráttu fyrir betra samfélagi í anda frelsis, jafnréttis og samstöðu. Ungir jafnaðarmenn telja að nú sé svo komið að ekki sé hægt að bíða lengur eftir að ástandið batni heldur þurfi að leita til flokksfélaga og eiga við þá opið og lýðræðislegt samtal um framtíð flokksins. Íslendingar eiga skilið sterkan jafnaðarmannaflokk og Samfylkingin á að sinna því hlutverki til lengri tíma.“ Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ungum jafnaðarmönnum.
Ungliðahreyfingin er þar með að taka undir kröfu þingmannsins Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur og Samfylkingarinnar á Akureyri um að flýta þurfi landsfundi og formannskjöri.
Samfylkingin mælist með afar lítið fylgi og hefur gert um langt skeið. Í nýjustu könnun MMR, sem birt var í gær fór Samfylkingin nærri meti sínu í litlu fylgi og mældist nú með 9,4 prósent stuðning. Það er einungis 0,1 prósentustigi meira en sögulegur botn hennar í könnunum MMR, en honum var náð í júní 2015 þegar fylgið mældist 9,3 prósent. Samfylkingin fékk 12,9 prósent atkvæða í síðustu þingkosningum sem var langversti árangur flokksins frá stofnun.
Unnið að endurskoðun á lögum flokksins
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sagði í samtali við Kjarnann í gær að hann segist gera ráð fyrir því að gefa aftur kost á sér sem formaður komi til allsherjaratkvæðagreiðslu um nýju forystu í flokknum.
Framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar vinnur nú að endurskoðun á lögum flokksins, meðal annars til að geta átt möguleika á að breyta tímasetningum á landsfundum. Umræða hefur skapast innan flokksins um að flýta komandi landsfundi, en samkvæmt lögum verður að halda þá á tveggja ára fresti. Einnig er verið að skoða hvort hægt sé að flýta formannskjöri í allsherjaratkvæðagreiðslu.
Sema Erla Serdar, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, sagði við Kjarnann í gær að umræðan hafi staðið yfir frá síðasta landsfundi. Þá vann Árni Páll formannsslag á móti Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, þingmanni flokksins, með einu atkvæði. „Í fyrra var lögð fram tillaga í framkvæmdastjórn um að landsfundur yrði haldinn haustið 2016. En það náði ekki lengra því við erum með þessi löngu og ítarlegu lög sem tilgreina að landsfund skuli halda á tveggja ára fresti. Þar lá vandinn. En í kjölfarið skoðuðum við að það er hægt að halda landsfund snemma árið 2017 en hægt væri að halda allsherjaratkvæðagreiðslu um formann 2016.”
Stjórn Samfylkingarinnar mun funda í dag. Á fundi hennar verður meðal annars fjallað um hvort hvort hægt sé að flýta landsfundi.