Mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur kallað eftir því að ríki í Rómönsku-Ameríku, sem hafa orðið hvað verst úti vegna Zika-veirunnar, veiti konum aðgang að bæði fóstureyðingum og getnaðarvörnum. Veiran, sem breiðist nú hratt út, er talin valda alvarlegum fæðingargalla, höfuðsmæðarheilkenni.
Í mörgum þeirra ríkja þar sem hvað flestir hafa smitast er aðgangur að getnaðarvörnum lítill og fóstureyðingar bannaðar. Til dæmis eru dæmi þess í El Salvador, sem hefur orðið illa úti, að konur séu dæmdar fyrir morð þegar þær missa fóstur.
Víða í Rómönsku-Ameríku hefur verið gripið til þess ráðs að hvetja konur til þess að verða ekki þungaðar.
Mannréttindastofnunin hefur hins vegar farið fram á það við stjórnvöld í löndum sem glíma við veiruna að hverfa frá stefnum sínum þegar kemur að fóstureyðingum og aðgangi að getnaðarvörnum. Zeid Ra'ad Al Hussein, yfirmaður Mannréttindastofnunar SÞ, segir að það sé nauðsynlegt að virða kvenréttindi ef takast á að stemma stigu við veirunni. Lög í mörgum ríkjanna sem um ræðir brjóti í bága við alþjóðlega staðla. Það verði að tryggja að konur fái upplýsingar, stuðning og þjónustu sem þær þurfa til að fá að áða því hvort og hvenær þær verði þungaðar.
„Ráðin sem sum stjórnvöld gefa konum, um að fresta barneignum, lítur framhjá þeim raunveruleika að margar konur og stúlkur geta ekki stjórnað því hvort, hvenær eða undir hvaða kringumstæðum þær verða þungaðar, sérstaklega í umhverfi þar sem kynferðisofbeldi er svo algengt.“