Aðsókn á leiki í Pepsí-deild karla síðasta sumar var sú besta sem verið hefur frá árinu 2011. Að meðaltali mættu 1.107 áhorfendur á leiki í deildinni sumarið 2015, sem er 20 prósent aukning frá árinu á undan, þegar 923 mættu á leiki í deildinni að meðaltali. Þetta kemur fram í nýbirtri ársskýrslu Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) fyrir árið 2015.
Auk þess er um að ræða þriðja aðsóknarmesta árið frá upphafi. Einungis árin 2007, þegar 1.329 manns mættu að meðaltali á leiki í efstu deild karla, og árið 2010, þegar áhordendur voru 1.205 að meðaltali, hafa skilað fleiri áhorfendum.
Viðsnúningurinn er einnig athyglisverður sökum þess að árið 2014 var það slakasta í 15 ár og í fyrsta sinn síðan árið 2002 sem áhorfendur voru undir eitt þúsund að meðaltali á leik.
Aðsókn á leiki í Pepsí-deild kvenna í fyrrasumar var að meðaltali 190 áhorfendur á leik.
HM og veður orsakaði dýfu 2014
Kjarninn fjallaði um þá dýfu sem aðsókn á leiki í Pepsí-deild karla tók sumarið 2014 í október það ár, þegar einn leikur var eftir af Íslandsmótinu. Þórir Hákonarson, þáverandi framkvæmdastjóri KSÍ, sagði að þrjú atriði útskýrðu fækkunina að einhverju leyti. „Heimsmeistaramótið í knattspyrnu [sem fram fór í Brasilíu það sumar] er eitt þeirra. Það hefur alltaf mikil áhrif á aðsókn. Þessi keppni sem fór fram í sumar var auk þess einstaklega skemmtileg og fékk gríðarlega mikið áhorf. Annað atriði er veðurfar á Íslandi í sumar [2014] sem bætist ofan á þetta. Veðrið hefur verið mjög slæmt eiginlega í allt sumar. Það var ekkert sérstaklega gott í fyrra [2013], en það er búið að vera enn verra núna. Sérstaklega á leikdögum, það hefur hitt þannig á að það hefur verið mjög slæmt á þeim. Þriðja atriðið er að í upphafi sumars vorum við í vandamálum með heimavelli liðanna og þurftum að spila nokkra leiki á gervigrasinu í Laugardalnum vegna ástands vallanna. Það hefur auðvitað veruleg áhrif líka. Að liðin gátu ekki leikið leikina á sínum heimavöllum heldur þurftu að spila fyrstu leikina í Laugardalnum.“
Átta prósent þjóðarinnar verður á EM
Næsta sumar mun íslenska karlalandsliðið taka þátt í lokakeppni stórmóts í fyrsta sinn, þegar það leikur á EM í Frakklandi. Búist er við því að tugþúsundir Íslendinga muni gera sér ferð á leiki Íslands á EM. Alls sóttu Íslendingar um 26.985 miða á landsleiki liðsins. Það eru um átta prósent þjóðarinnar.
Því er ljóst að margir eldheitir knattspyrnumenn ekki á Íslandi seinni hluta júnímánaðar 2016. Þrír leikir verða leiknir í Pepsí-deild karla á meðan að riðlakeppni EM fer fram. Þeir fara fram daganna 15-16. júní, á milli fyrsta og annars leiks íslenska landsliðsins.