Ballaðan af Nancy og Tonyu

Tvær skautadrottningar settu íþróttaheiminn á annan endann árið 1994. Kristinn Haukur Guðnason sagnfræðingur kafaði ofan í ótrúlegt einvígi Nancy og Tonyu á skautasvellinu og utan þess.

Kristinn Haukur Guðnason
Nancy
Auglýsing

Í ársbyrjun árið 1994 beindist athygli heimsins að tveimur ungum skautadrottningum. Ástæðan var ekki sú hversu færar þær voru á svellinu heldur vegna þess að önnur var grunuð um að skipuleggja fólskulega líkamsárás á hina. Atburðarrásin er einhver sú ótrúlegasta í íþróttasögunni og heimurinn fylgdist með í beinni útsendingu. Hvernig þær unnu úr reynslunni er svo saga út af fyrir sig. Sagan af Nancy og Tonyu er saga tveggja mjög ólíkra kvenna sem báðar voru drifnar áfram af sama kraftinum, keppnisskapinu.

Ungstirni

Bakgrunnur Nancy Kerrigan og Tonyu Harding er að mörgu leyti álíkur. Þær ólust báðar upp við þröngan kost, þóttu nokkuð strákalegar í fasi og hæfileikar þeirra uppgötvuðust í barnæsku. En munurinn var þó töluverður á þeim. Kerrigan fæddist árið 1969 í smábænum Stoneham í Massachusetts fylki inn í mikla skautafjölskyldu. Báðir bræður hennar stunduðu íshokkí og þegar ljóst var að hún hafði hæfileika á listskautum fékk faðir hennar sér aukavinnu til að geta ráðið þjálfara. Harding fæddist árið 1970 í stórborginni Portland í Oregon fylki, hinum megin í Bandaríkjunum. Hún ólst upp í mikilli fátækt hjá veikum föður og ofbeldisfullri móður sem yfirgaf fjölskylduna þegar Tonya var á unglingsaldri. Móðir hennar hafði aldrei mikla trú á henni og því lenti það í verkahring þjálfara hennar að ala hana upp í íþróttinni. Kerrigan og Harding byrjuðu ferla sína á listskautum með miklum krafti og þær þóttu báðar líkamlega sterkar. 

En þegar á leið fóru þær í algerlega sitt hvora áttina. Harding skautaði hratt og einbeitti sér að líkamlega erfiðum og flóknum stökkum sem hún framkvæmdi með gríðarlegum sprengikrafti. Kerrigan breytti algerlega um stíl og fór að einbeita sér frekar að fallegum línum og listrænum líðandi dansi. Hún féll algerlega að ímyndinni um „ísprinsessuna”, sem hafði verið ríkjandi í listskautum kvenna í áratugi, bæði af dómurum, skautasambandinu, almenningi og síðast en ekki síst stórfyrirtækjum. Hún fékk auglýsingasamninga hjá mörgum fyrirtækjum á borð við Reebok, Revlon og Campbell´s súpum og varð fyrirmynd ungra skautastúlkna. 

Auglýsing

Harding var alger andstæða. Hún þótti óhefluð utan svellsins sem innan. Saumaði búninga sína sjálf og valdi oft á tíðum óhefðbundna og jafnvel óviðeigandi tónlist fyrir atriði sín. Hún féll engan veginn að ímyndinni um ísprinsessuna og fékk þar af leiðandi enga samninga og ekkert fjármagn utan verðlaunafés. En á unglingsárum leyndu hæfileikar Tonyu Harding sér ekki. Á seinni hluta níunda áratugarins reis frægðarsól hennar hratt og hún kom til greina fyrir ólympíuleikana árið 1988 í Calgary, aðeins 17 ára gömul. Framgangur Kerrigan var aðeins hægari á unglingsárunum en báðar settu þær markið á ólympíuleikana 1992 sem haldnir voru í Albertville í Frakklandi.

Stefndu á ólympíugull

Í upphafi tíunda áratugarins voru Harding og Kerrigan tvær af skærustu stjörnum listskautanna en lifðu þó báðar í skugga Kristi Yamaguchi, einnar allra bestu skautakonu sögunnar. Árið 1991 var sérlega gott fyrir Harding. Hún vann tvær af stærstu keppnum Bandaríkjanna (Ameríska meistaramótið og Skate America) þar sem hún braut blað í skautasögunni með svokölluðu þreföldu öxulstökki. Þar skautar keppandinn aftur á bak stekkur þrefalt stökk og lendir á hinum fætinum.

Þetta stökk varð að einkennismerki Harding á þessum tíma. Hún tók mikla áhættu með þessu og datt stundum og gerði þá út um sigurmöguleika sína. Harding og Kerrigan kepptu í fyrsta skipti á heimsmeistaramóti árið 1991 og enduðu í öðru og þriðja sæti, á eftir Kristi Yamaguchi. En eftir þetta byrjaði frammistaða Harding að dala og Kerrigan fór frammúr henni. Kerrigan vann brons á ólympíuleikunum í Albertville en Harding endaði í fjórða sæti. 

Mánuði seinna vann Kerrigan silfur á heimsmeistaramótinu í Oakland á meðan Harding endaði aðeins í sjötta sæti. Yamaguchi vann bæði mót en ljóst var að hún myndi hætta ári seinna. Þá leit allt út fyrir að Nancy Kerrigan yrði hinn nýji meistari og Harding þoldi ekki þá tilhugsun. Árið 1986 ákvað Alþjóðlega ólympíusambandið að vetrar og sumarleikarnir yrðu ekki haldnir á sama ári eins og venjan var. Þessi breyting komst í framkvæmd eftir leikana árið 1992. Semsagt vetrarleikar yrðu haldnir strax tveimur árum seinna, árið 1994 í bænum Lillehammer í Noregi. Þetta var einstakt tækifæri fyrir bæði Kerrigan og Harding þar sem ferill listskautakvenna er ákaflega stuttur. Báðar stefndu á leikana í Lillehammer en eftir að Nancy Kerrigan vann ameríska meistaramótið árið 1993 og Harding lenti einungis í fjórða sæti sá sú síðarnefnda að hún yrði að grípa í taumana.


Þaulskipulögð árás

Hinn 6. janúar árið 1994 er dagur sem verður lengi í minnum hafður í heimi íþróttanna. Nancy Kerrigan var að ljúka æfingu á Cobo Arena æfingavellinum fyrir ameríska meistaramótið sem var einnig úrtökumót fyrir ólympíuleikana. Þegar gekk út af vellinum veittist að henni maður með útdraganlega járnkylfu og sló hana þéttingsfast í hægri fótlegginn, rétt ofan við hné, nokkrum sinnum og tók síðan á rás. Aðdragandi atviksins og eftirleikurinn náðist á myndband en maðurinn komst á brott. Nancy grét hástöfum og kallaði “Af hverju? Af hverju?” og faðir hennar bar hana svo út í bíl þar sem henni var ekið á sjúkrahús. Fótleggur hennar hafði ekki brotnað en hann var illa marinn, skorinn og það bólginn að hún varð að hætta við þátttöku á mótinu. Tonya Harding steig hins vegar fram og sigraði mótið og vann sér inn þátttökurétt á ólympíuleikunum. 

Fólk var mjög hugsi yfir þessum atburði og fljótlega komu fram kenningar um að Harding hefði átt hlut að máli. Málið þótti það farsakennt að fjölmiðlar flykktust að og um fátt annað var rætt á komandi vikum og mánuðum. Þegar þetta gerðist var einungis rúmur mánuður í ólympíuleikana. Skömmu eftir atvikið fékk alríkislögreglan FBI nafnlausar ábendingar um að menn tengdir Tonyu Harding hefðu framið verknaðinn. Nokkrum dögum seinna voru fjórir menn bendlaðir við atburðinn handteknir. Einn af þeim var Jeff Gillooly eiginmaður Harding og annar Shawn Eckhardt, lífvörður hennar. Harding réð Eckhardt um haustið eftir að henni bárust morðhótanir að eigin sögn.

Þeir höfðu ráðið tvo menn, Shane Stant og Derrick Smith, til að fremja verknaðinn. Upp komst um fjórmenningana eftir að Eckhardt hafði grobbað sig af þætti sínum í árásinni við vin sinn Eugene Saunders sem leitaði til lögreglunnar. Lögreglan sendi Saunders til Eckhardt með upptökutæki innanklæða þar sem viðurkenning náðist á band. Þá kom í ljós að mennirnir fjórir höfðu mælt sér mót og ákveðið hvernig best væri að losa Tonyu Harding við keppinautinn. Það kom í hlut Stant að framkvæma árásina og Smith yrði flóttaökumaður. Eckhart vildi að Stant myndi skera í sundur hásin Kerrigan en Stant var ekki reiðubúinn til að nota hníf. Á fundinum kom meira að segja til tals að myrða Kerrigan en það var fljótlega slegið út af borðinu. Á endanum var samið um að Stant myndi fótbrjóta hana og fá 6500 dollara að launum fyrir verknaðinn.

Uppgjör í Lillehammer

Bandaríska skautasambandið ályktaði að ekki lægju nægjanlegar sannanir fyrir því að Harding hefði átt beina aðild að árásinni og því hélt hún sæti sínu í ólympíuliðinu. Kerrigan æfði stíft í gegnum mikinn sársauka en náði fljótlega að koma sér í gott form. Sökum aðstæðna var henni því veitt hitt sætið á kostnað hinnar 13 ára gömlu Michelle Kwan sem seinna varð stórstjarna. Því var ljóst að Nancy og Tonya myndu mætast á svellinu í Lillehammer. 

Fjölmiðlaher fylgdi þeim til Noregs og um fátt annað var talað fyrir leikana. Kerrigan og Harding voru m.a. á forsíðum blaðanna Time og Newsweek. Augu heimsins voru á skautadrottningunum þegar þær æfðu sig fyrir keppnina án þess að yrða eða líta á hvora aðra. Kerrigan var einbeitt og tilbúin þrátt fyrir meiðslin. Harding var hins vegar í annarlegu ástandi andlega og engan vegin reiðubúin til keppni. Hún stóð sig illa og lenti í vandræðum með skautana sína. Hún endaði í 8. sæti. Kerrigan skautaði aftur á móti mjög vel og komst í úrslit. Þar mætti hún hinni úkraínsku Oksönu Baiul en tapaði með minnsta mögulega mun og missti af gullinu. 

Mörgum fannst dómararnir vilhallir Baiul sem var ríkjandi heimsmeistari á þessum tíma. Keppnin í Lillehammer reyndist endapunktur á ferlum  bæði Kerrigan og Harding. Við heimkomuna lagði Kerrigan skautana á hilluna en Harding beið yfirheyrsla. Eiginmaður hennar hafði sagt lögreglunni að Harding hefði tekið fullan þátt í að skipuleggja árásina en hún neitaði því. Hún viðurkenndi aftur á móti að hafa vitað af árásinni eftir á en ekki upplýst um það. Harding hlaut þriggja ára skilorðsbundinn fangelsdóm fyrir meinsæri. Að auki var hún dæmd til samfélagsþjónustu og til að greiða háa sekt. Fjórmenningarnir fengu allir fangelsisdóma fyrir aðild sína að málinu. Um sumarið 1994 gerði bandaríska skautasambandið sína eigin rannsókn á málinu. Þá hafði fundist dagbók og önnur gögn í ruslatunnu sem bendluðu Harding við skipulagningu árásarinnar. Harding var í kjölfarið sett í ævilangt bann frá bæði keppni og þjálfun og svipt bandaríska meistaratitlinum frá því í janúar. 

Allt fyrir athyglina

Skömmu seinna mættust Kerrigan og Harding í tilfinningaþrungnum sjónvarpsviðtali á sjónvarpsstöðinni Fox. Harding baðaði sig í sviðsljósinu og talaði mikið en Kerrigan virtist vera búin með þennan kafla í lífi sínu. Eftir Lillehammer hvarf Kerrigan að mestu leyti úr sviðsljósinu utan skautaheimsins. Ef undan er skilið vandræðalegt atvik í skrúðgöngu í Disney-landi þar sem það náðist á myndband þegar hún sagði Mikka mús að henni þætti gangan heimskuleg og hallærisleg. 

Í dag er Kerrigan gift þriggja barna móðir sem býr í Massachusetts. Hún hefur m.a. unnið í sjónvarpi við lýsingar á listskautakeppnum, skrifað bækur og unnið að góðgerðarmálum. Árið 2010 komst hún óvænt í fréttirnar þegar annar bróðir hennar olli dauðsfalli föður þeirra. Hann var dæmdur til tveggja ára fangelsisvistar fyrir líkamsárás en sýknaður af morðákærunni. Nancy stóð með bróður sínum í gegnum réttarhöldin. Harding fór í þveröfuga átt. Hún naut sýn í sviðsljósinu og gerði hvað sem var til að halda athygli fjölmiðla á sér. Harding og Gillooly skildu á meðan rannsókn árásarinnar fór fram en um haustið 1994 seldu þau klámtímaritinu Penthouse upptöku af bólförum þeirra. Tveimur árum síðar lék hún í lélegri sjónvarpskvikmynd sem nefnist Breakaway. 

Hún hefur reynt fyrir sér í kappakstri, fjölbragðaglímu og veruleikasjónvarpi. Þá stofnaði hún hljómsveitina The Golden Blades sem var púuð niður af sviði á sínum einu tónleikum. Mestri velgengni hefur hún þó náð í hnefaleikum. Árið 2002 keppti hún í veruleikasjónvarpsþættinum Celebrity Boxing þar sem hún atti kappi við og sigraði Paulu Jones, sem sakaði Bandaríkjaforsetann Bill Clinton um kynferðislega áreitni árið 1994. Hún fékk atvinnumannasamning og keppti alls sjö sinnum á tveimur árum þar sem hún vann fjóra bardaga, einn gegn karlmanni. Harding er þrígift og á eitt barn. Hún nýtir hvert tækifæri sem hún fær til að ræða feril sinn og Kerrigan-árásina en hún neitar því enn þann dag í dag að hafa skipulagt hana. Nú er í framleiðslu kvikmynd um ævi hennar, I, Tonya, þar sem ástralska leikkonan Margot Robbie mun fara með aðalhlutverkið.


Dynasty á ís

Viðureign Nancy Kerrigan og Tonyu Harding er einn furðulegasti atburður í íþróttasögunni og hann er langt því frá gleymdur þó að liðin séu meira en 20 ár. Það hafa gerðar heimildarmyndir og þættir um atvikið, skrifaðar bækur, samin lög og meira að segja óperur, bæði klassískar og nýmóðins. Árið 2015 var söngleikurinn Tonya & Nancy: The Rock Opera frumsýndur á stærsta sviði heims, Broadway í New York.  Kannski er þó athyglisverðast safnið sem komið var á fót um skautakonurnar tvær. Herbergisfélagarnir og uppistandararnir Matt Harkins og Viviana Olen komu safninu á fót á heimili sínu í New York eftir söfnun á hópfjármögnunarsíðunni Kickstarter.com. Safnið er lítið, aðeins einn gangur en veggir hans eru þaktir munum tengdum atburðunum. Þau voru aðeins börn þegar atburðirnir gerðust en muna þó vel eftir þeim. Olen segir:

Við munum bara Disney útgáfuna af sögunni. Þið vitið, um þessa brjáluðu, druslulegu persónu sem lét lemja ísprinsessuna. Þetta er svo djúpt. Þetta er svo amerísk saga, þetta er sápuópera, Dynasty á ís.

Harkins bætir við að sagan og safnið snúist aðallega um persónurnar og að allir geti fundið sig í þeim. Hann segir:

Ég er Nancy. En stundum óska ég þess að ég væri svolítil Tonya.


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Upplýsingar um alla hluthafa og hversu mikið þeir eiga í skráðum félögum hafa legið fyrir á opinberum vettvangi undanfarið. Þetta telur Persónuvernd stríða gegn lögum.
Persónuvernd telur víðtæka birtingu hluthafalista fara gegn lögum
Vegna nýlegra lagabreytinga hefur verið hægt að nálgast heildarhluthafalista skráðra félaga í Kauphöllinni í samstæðureikningum á vef Skattsins. Persónuvernd telur þessa víðtæku birtingu fara gegn lögum.
Kjarninn 18. júní 2021
Flókið að fást við fólk sem lætur sannleikann ekki þvælast fyrir sér
Kerfið brást Helgu Björgu harðlega eftir að hún upplifði stöðugt áreiti borgarfulltrúa Miðflokksins í um tvö ár án þess að geta borið hönd fyrir höfuð sér. Málið hefur haft margvíslegar alvarlegar afleiðingar á andlega og líkamlega heilsu hennar.
Kjarninn 18. júní 2021
Horft frá Nauthólsvík yfir á Kársnes og að Hamraborg, þar sem Kópavogsbær stefnir á uppbyggingu þéttrar byggðar meðfram væntum borgarlínuleiðum.
Telur kjörnum fulltrúum skylt að rýna í hugmyndir um ódýrari Borgarlínu
Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi vill rýna betur í hugmyndir um ódýrari Borgarlínu, sem lagðar hafa verið fram að undanförnu, svo vilji sveitarstjórna sé skýr í málinu. Einnig viðrar hún sérstakar áhyggjur af rekstrarkostnaði.
Kjarninn 18. júní 2021
N1 er vinsælasti viðkomustaður þeirra sem hafa notað nýju ferðagjöf stjórnvalda.
Bensínstöðvar, baðlón og skyndibitastaðir vinsælust hjá notendum nýrrar ferðagjafar
Yfir 10 þúsund manns hafa nýtt nýja ferðagjöf stjórnvalda og um 50 milljónir króna verið greiddar út. Kunnugleg nöfn raða sér í efstu sæti þeirra fyrirtækja sem tekið hafa við mestu en baðlónið Sky Lagoon kemur nýtt inn á lista og tyllir sér í annað sæti.
Kjarninn 17. júní 2021
Guðjón Sigurðsson
Alþjóðlegur MND dagur 20. júní 2021
Kjarninn 17. júní 2021
Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri.
Fyrrverandi seðlabankastjóri fékk fálkaorðuna
Forseti Íslands sæmdi fjórtán manns fálkaorðunni á Bessastöðum í dag.
Kjarninn 17. júní 2021
Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins.
Vilja endurvekja sjálfstæðisbaráttuna
„Eins og fyrri kynslóðum tókst að umbreyta íslensku samfélagi með sjálfstæðisbaráttu almennings þá mun okkur takast það einnig. Þeim tókst það og okkur mun líka takast það.“ Sósíalistaflokkurinn sendi frá sér tilkynningu í tilefni af 17. júní.
Kjarninn 17. júní 2021
Ólafur Ólafsson
Mannréttindadómstóll Evrópu vísar kæru Ólafs Ólafssonar frá
MDE hafnaði í morgun með afgerandi hætti að Rannsóknarnefnd Alþingis hefði brotið gegn rétti Ólafs Ólafssonar til réttlátar málsmeðferðar.
Kjarninn 17. júní 2021
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar
None