Það stefnir allt í Reykjavíkurstjórn

Píratar virðast ætla að verða sigurvegarar komandi kosninga og bæta meira við sig en Framsókn gerði 2013. Þrír rótgrónustu flokkarnir stefna allir í sögulegt afhroð. Það er Reykjavíkurstjórn í kortunum.

Það virðist ekki vera mikil tilfærsla á fylgi stjórnmálaflokkanna síðustu daga, samkvæmt nýjustu Kosningaspá Kjarnans. Stjórnarflokkarnir virðast nokkuð fastir í sínu rétt rúmlega 30 prósent sameiginlega fylgi og Viðreisn er aðeins að missa flugið. Þær örfáu prósentur sem eru á hreyfingu virðast vera að fara til Vinstri grænna og Pírata. Miðað við vendingar síðustu daga stefnir allt í sama stjórnarmynstur og ræður ríkjum í Reykjavíkurborg um þessar mundir. Þ.e. samsteypustjórn Vinstri grænna, Pírata, Bjartrar framtíðar og Samfylkingar.

Píratar bæta við sig meira en Framsókn gerði síðast

Píratar verða alltaf sigurvegarar kosninganna ef litið er á þær með hefðbundnum gleraugum. Flokkurinn var stofnaður skömmu fyrir síðustu kosningar, fékk 5,1 prósent í þeim og skreið inn á þing með þrjá þingmenn. Samkvæmt nýjustu kosningaspá Kjarnans er flokkurinn með 20 prósent fylgi, er farinn að bæta aftur við sig á síðustu metrum kosningabaráttunnar og sumar kannanir í vikunni sýndu hann stærri en Sjálfstæðisflokkinn, sem er á hægri niðurleið í fylgi.

Verði þetta niðurstaðan munu Píratar hafa bætt við sig um 15 prósentustigum milli kosninga. Til að setja þá tölu í samhengi þá má benda á að Framsóknarflokkurinn fékk 14,8 prósent atkvæða í kosningunum 2009. Fjórum árum síðar, í kjölfar Icesave-dómsins og Leiðréttingarloforðsins, fékk flokkurinn 24,4 prósent atkvæða. Það var samdóma álit nær allra álitsgjafa og sérfræðinga að Framsókn hefði verið sigurvegari kosninganna 2013. Samt bætti flokkurinn undir tíu prósentustigum við sig á milli kosninga, eða mun minna en það sem Píratar stefna á að bæta við sig.

Fylgi Pírata er þó viðkvæmast allra stjórnmálaflokka, sérstaklega þar sem þeir sækja mikið af því til ungs fólks sem sögulega er langólíklegast til að skila sér á kjörstað. Það mun því skipta miklu máli fyrir úrslit kosninganna hvernig kosningaþátttaka yngstu kjósendanna verður.

Reykjavíkurstjórn í kortunum

Í desember í fyrra birtist fréttaskýring á Kjarnanum þar sem því var haldið fram að Píratar héldu á lyklinum að kosningabandalagi stjórnarandstöðuflokkanna, væri vilji fyrir því. Og Píratar halda sannarlega á lyklinum að myndun næstu ríkisstjórnar vegna þess að þeir munu að öllum líkindum geta valið hvort þeir starfi til vinstri, myndi miðjustjórn, eða líti til hægri með Sjálfstæðisflokki og Viðreisn.

Eins og stendur verður miðjustjórnin þó að teljast ólíkleg vegna þess að hún þyrfti fimm flokka (Pírata, Bjarta framtíð, Samfylkingu, Viðreisn og Framsókn) til að ná meirihluta, þar á meðal Framsóknarflokkinn. Og Píratar hafa gefið það skýrt til kynna að þeir vilji ekki vinna með Sjálfstæðisflokknum. Afar ólíklegt verður að teljast að mynduð verði minnihlutastjórn sem treystir á stuðning annarra flokka fyrir setu sinni.

Þótt kosningabandalagið sé enn sem komið er óformlegt gefa tíðindi helgarinnar, að leiðtogar stjórnarandstöðuflokkanna séu að hittast í dag til að fara yfir forgangsmál sín og samstarfsfleti, það skýrt til kynna hver vilji flokkanna fjögurra er: að mynda ríkisstjórn eftir sama stjórnarmynstri og ræður í borgarstjórn Reykjavíkur. Miðað við Kosningaspána ættu flokkarnir að ná meirihluta atkvæða, eða 51,4 prósent. Það er betri prósentutala en sitjandi ríkisstjórn fékk samanlagt í kosningunum 2013, þegar Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn fengu samtals 51,1 prósent atkvæða. Það skilaði þeim flokkum þá hins vegar 60 prósent þingsæta. Samkvæmt þingsætaskiptingu í síðustu könnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið myndu stjórnarandstöðuflokkarnir fjórir fá 36 þingsæti, eða 57 prósent þingsæta og því afar stjórntækan meirihluta.

Ánægja á miðjunni og til vinstri

Vinstri grænir geta líka verið afar sáttir við sína stöðu svona skömmu fyrir kosningar. Flokkurinn hefur verið að bæta við sig hægt og rólega og ætlar að ná að toppa á réttum tíma. Samkvæmt Kosningaspánni mælist fylgi hans 17 prósent, en var 12,7 prósent í lok september. Þar skiptir styrkur Katrínar Jakobsdóttur, sem er í algjöru aðalhlutverki í kosningabaráttu flokksins, líkast til mestu máli. Og persónulegar vinsældir hennar þvert á flokka munu nær örugglega gera það að verkum að hún verður forsætisráðherra í stjórn núverandi stjórnarandstöðuflokka, myndi þeir ríkisstjórn.

Viðreisn ætti líka að geta vel við unað þótt að fylgið sé að dala eilítið frá því að það náði hápunkti um síðustu mánaðamót (11,7 prósent). Flokkurinn mun samt sem áður, haldist fylgi hans, ná því að verða það nýja stjórnmálaafl sem nær mestu fylgi í fyrstu kosningum sínum séu undirstöðuflokkar íslenskra stjórnmála undanskildir.

En glaðastir allra eru líklega liðsmenn Bjartrar framtíðar. Á örfáum vikum hefur flokkurinn farið frá því að vera algjörlega afskrifaður í íslenskri pólitík í að ná að verða stærri en Samfylkingin og líkast til gegna lykilhlutverki í næstu ríkisstjórn.

Þrír stefna í sögulega slaka niðurstöðu

Sjálfstæðisflokkurinn stefnir í sína verstu útkomu í sögunni. Fylgi flokksins mælist 22 prósent og verði það niðurstaða kosninganna mun flokkurinn bæta lágfylgismet sitt frá árinu 2009, þegar hann fékk 23,7 prósent. Miðað við stöðuna getur Sjálfstæðisflokkurinn búist við að fá um 15 þingmenn og afar ólíklegt verður að teljast að hann muni geta myndað ríkisstjórn. Viðreisn hefur þegar útilokað að verða þriðja hjólið undir vagni sitjandi ríkisstjórnar og helsta von Sjálfstæðismanna hlýtur að vera sú að markaðssinnuðu miðjuflokkarnir, Viðreisn og Björt framtíð, nái að kroppa af Pírötum og Vinstri grænum á lokasprettinum og ákveði að starfa frekar með Framsókn og Sjálfstæðisflokki en til vinstri. Slík ríkisstjórn yrði þó með ansi tæpan meirihluta.

Annar stjórnmálaflokkur sem stefnir í afhroð er Framsóknarflokkurinn. Hann hefur aldrei fengið undir tíu prósent fylgi í Alþingiskosningum frá því að hann bauð fyrst fram fyrir tæpri öld. Þingflokkur flokksins eftir komandi kosningar stefnir í að vera sex manns, og hefur þá aldrei verið minni í sögunni.

Ríkisstjórnin sem mynduð var í kjölfar Wintris-málsins virðist ekki eiga neina möguleika á að lifa af. Þvert á móti stefna báðir flokkarnir innan hennar í sína verstu niðurstöðu í sögunni.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Samfylkingin var stofnuð um síðustu aldarmót og náði til að byrja að verða sá turn jafnaðarmanna sem að var stefnt. Í fyrstu fjórum kosningum flokksins fékk hann 26,8-31 prósent atkvæða. Samfylkingin hrundi 2013 og fékk einungis 12,9 prósent. Þeir sem héldu að botninum væri náð hafa þurft að endurskoða þá ákvörðun verulega. Nú mælist fylgi flokksins rétt yfir sjö prósent og engar blikur eru á lofti um að það sé að fara að aukast á lokametrum kosningabaráttunnar. Þvert á móti hefur fylgið verið að dala síðustu vikurnar. Alþýðuflokkurinn, helsti fyrirrennari Samfylkingarinnar, fékk einungis einu sinni verri útreið í kosningum en það sem Samfylkingin stefnir nú í. Það var árið 1916 þegar flokkurinn fékk 6,8 prósent atkvæða í fyrstu kosningunum sem hann bauð fram í.

Það liggur því fyrir að þrír rótgrónustu flokkar landsins eru allir að stefna í verstu útkomu sína i sögunni í komandi kosningum.

Um kosn­­inga­­spána 21. októ­ber

Nýjasta kosn­­­inga­­­spáin tekur mið af fimm nýj­­­ustu könn­unum sem gerðar hafa verið á fylgi fram­­­boða í Alþing­is­­­kosn­­­ing­unum í haust. Í spálík­­­an­inu eru allar kann­­­anir vegnar eftir fyrir fram ákveðnum atrið­­­um. Þar vega þyngst atriði eins og stærð úrtaks, svar­hlut­­­fall, lengd könn­un­­­ar­­­tíma­bils og sög­u­­­legur áreið­an­­­leiki könn­un­­­ar­að­ila. Kann­an­­­irnar sem kosn­­­inga­­­spáin tekur mið af eru:

  • Þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar HÍ fyrir Morgunblaðið 13.-19. október (vægi: 27,6%)
  • Skoðanakönnun Fréttablaðsins 17.-18. október (vægi: 17,8%)
  • Skoðanakönnun MMR 6.-13. október (vægi: 16,2%)
  • Þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar HÍ fyrir Morgunblaðið 6.-12. október (vægi: 16,7%)
  • Þjóðarpúls Gallup 3.-12. október (vægi: 21,7%)

Kosn­­­­­­­­­­inga­­­­­­­­­­spálíkan Bald­­­­­­­­­­urs Héð­ins­­­­­­­­­­sonar miðar að því að setja upp­­­­­­­­­­lýs­ing­­­­­­­­­­arnar sem skoð­ana­kann­­­­­­­­­­anir veita í sam­hengi. Fyr­ir­liggj­andi skoð­ana­kann­­­­­­­­­­anir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosn­­­­­­­­­­inga. Kjarn­inn birti Kosn­­­­­­­­­­inga­­­­­­­­­­spá Bald­­­­­­­­­­urs fyrir sveit­­­­­­­­­­ar­­­­­­­­­­stjórn­­­­­­­­­­­­­­­­­­­ar­­­­­­­­­­kosn­­­­­­­­­­ing­­­­­­­­­­arnar og reynd­ist sú til­­­­­­­­­­raun vel. Á vefn­um kosningaspá.is má lesa nið­­­­­­­­­­ur­­­­­­­­­­stöður þeirrar spár og hvernig vægi kann­ana var í takt við frá­­­­­­­­­­vik kann­ana miðað við kosn­­­­­­­­­inga­úr­slit­in.

Áreið­an­­­­­­­­­­leiki könn­un­­­­­­­­­­ar­að­ila er reikn­aður út frá sög­u­­­­­­­­­­legum skoð­ana­könn­unum og kosn­­­­­­­­­­inga­úr­slit­­­­­­­­­­um. Einnig hefur það vægi hversu langt er síðan könn­unin var fram­­­­­­­­­­kvæmd og svo hversu margir svara í könn­un­un­­­­­­­­­­um.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar