Kjarninn var stútfullur af áhugaverðu efni um liðna helgi eins og venjulega. Meðal annars var sagt frá því á laugardaginn að Knattspyrnusamband Íslands mun velta 2,3 milljörðum króna á þessu ári. Jafnvel þótt það muni kosta mikið að fara á EM í Frakklandi er áætlað að KSÍ skili 600 milljóna króna hagnaði.
Sagnfræðingurinn Kristinn Haukur Guðnason sagði lesendum frá Göring-bræðrunum. Á meðan Hermann Göring var einn valdamesti nasistinn var bróðir hans, Albert Göring, baráttumaður gegn nasisma. Hann bjargaði fjölmörgum gyðingum og öðrum úr glóm nasistanna.
Herdís Sigurgrímsdóttir skrifaði um myndina af Saad Alsaudi, sem var hraðasti táningshlaupari í Svíþjóð, en myndin sem um ræðir hefur verið notuð í ýmsum áróðri gegn innflytjendum. Hann var með dökka skeggrót, sýnilega frá Mið-Austurlöndum og 15 ára.
Danir ætluðu að hjálpa Bandaríkjamönnum að klófesta Edward Snowden á sínum tíma, og leyfðu bandarískri flugvél að dvelja á Kastrup í marga daga ef ske kynni að hann kæmi til Danmerkur. Borgþór Arngrímsson sagði frá þessari sögu, sem nú er mikið talað um í Danmörku.
Bryndís Ísfold fylgist náið með forvali fyrir forsetakosningar í Bandaríkjunum og um helgina skrifaði hún um breytta landslagið í forvali repúblikana. Útlit er fyrir að Donald Trump sé að fatast flugið.
Grettir Gautason ræddi við leikarann og trommuleikarann Björn Stefánsson, Bjössa í Mínus, í hlaðvarpinu Grettistaki. Þeir ræddu um sögu Mínus, listamannalaun og margt fleira í þættinum. Í Tæknivarpinu var fjallað um nýjar viðskiptaleiðir 365 miðla, sem hafa hrist upp í fjarskiptamarkaðnum.
Þá skrifaði fyrrverandi ráðherrann, og núverandi þingmaðurinn Steingrímur J. Sigfússon um sjávarútveginn, sem er með vind í seglin.