Bilið á milli fjölda þeirra Íslendinga sem flytja frá landinu og þeirra sem snúa aftur heim breikkar stöðugt. Ekki hafa færri flutt heim á ný undanfarna 12 mánuði síðan árið 2010, tveimur árum eftir efnahagshrun.
Tölur Hagstofunnar eru gefnar út á hverjum ársfjórðungi undanfarin ár og töluverðar sveiflur eru á milli ársfjórðunga. Yfirleitt flytjast flestir út á haustin, þar sem fólk hefur nám erlendis á þeim árstíma, og svipaðar sveiflur er að sjá þegar tölur eru skoðaðar varðandi þá sem flytja heim.
Það er ekkert endilega rétt að tala alltaf um aukinn flótta frá landinu, þegar fleiri fari út heldur en komi heim, eins og fram kemur í Vísbendingu, Vikuriti um viðskipti og efnahagsmál. Fram að árinu 2013 fluttu um 4.000 manns burt á árinu, en fækkaði um nærri þúsund fram að hausti sama ár. Á sama tíma fjölgaði þeim sem sneru aftur heim.
Þá segir í Vísbendingu að þessi þróun sé skiljanleg í ljósi þess að þarna voru fimm ár liðin frá efnahagshruninu og áhrif þess höfðu dvínað talsvert. Þá er bent á að á þessum tíma var komið á jafnvægi á milli brottfluttra og aðfluttra Íslendinga.
Frá þeim tíma hefur þeim fjölgað sem flytja frá landinu á sama tíma og þeim fækkar sem snúa aftur heim. Bilið fer breikkandi á undanförnum tveimur árum.
Skýr þróun
Kjarninn hefur greint frá þessari þróun undanfarin misseri. Alls fluttu 3.210 íslenskir ríkisborgarar frá Íslandi á fyrstu níu mánuðum ársins 2015, eða um 1.130 fleiri en fluttu til þess. Brottfluttir íslenskir ríkisborgara umfram heimkomna hafa einungis fimm sinnum verið fleiri samkvæmt gagnagrunni Hagstofu Íslands, sem nær til 1961. Það voru árin 1970, 1995, 2009, 2010 og 2011. Öll þau ár komu hins vegar í kjölfar kreppuára, þ.e. ára þar sem samdráttur ríkti í íslensku hagkerfi. Það er ekki raunin nú, þar sem hagvöxtur hefur verið hérlendis frá árinu 2011.
Töluverðar umræður hafa skapast um framsetningu þessara talna. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra gerði þær meðal annars að umtalsefni í áramótapistli sínum í Morgunblaðinu og Hagstofustjóri sendi einnig frá sér yfirlýsingu.
VR hefur bent á að brottflutningur frá landinu sé að aukast á sama tíma og aðflutningur dragist saman, sem sé óvenjulegt í ljósi þess að almennt atvinnuleysi fer minnkandi og hagvöxtur eykst. Fjöldi þeirra sem eru með háskólamenntun og eru án vinnu hefur aukist um 275 prósent á síðustu 10 árum.